Ennþá örlítill grenjandi minnihluti

Miðhálendisþjóðgarður er ekki vond hugmynd. Þjóðgarður er heldur ekki hugmynd sem varð til fyrir skemmstu hér á landi. Samt er látið eins og hér sé verið að finna upp hjólið og stjórnvöld virðast ætla að gera öll mistökin í bókinni áður en við finnum þessu mikilvæga verkefni réttan farveg.

Það að ætla að úthýsa mannauðnum sem best veit hvernig við getum verndað hálendið er mesti skaðvaldurinn. Þjóðgarður. Já, já - alveg til í það. En til að hann sé til gagns og sannarlega til að fólkið í landinu hafi gagn af er best að honum sé stjórnað af fólkinu sem lengst hefur hugað að hálendinu. Bændur, ferðafélög, útivistarhópar, veiðifólk o.s.frv.

Við sáum öll loforðin sem gefin voru varðandi Vatnajökulsþjóðgarð og hvernig þau voru þverbrotin síðar með lagabreytingum eftir á. Bullandi fjáraustur í hönnunarklósett og fína bíla undir Excel-fólk.

Búum til þjóðgarð. Gerum það á réttum forsendum og hættum að láta rándýrar stofnanir, nefndir og ráð stjórna því.

Ég segi, ég er örlítill grenjandi minnihluti því ég er sennilega í minnsta hlutanum. Styð þjóðgarð enda margar góðar forsendur fyrir slíku. En rétt eins og hér hafa margar þjóðir gert þau mistök í upphafi að halda að þjóðgarður sé stofnun á skrifstofu.

Ég er því alfarið á móti stofnun þjóðgarðs eins og ríkið leggur upp með núna og ég vil gagngera endurskoðun á fyrirkomulagi Vatnajökulsþjóðgarðs. Mestu mistök þjóðar er að hunsa mannauð og leggja fyrir nefndir og Excel-skjöl.

Þegar Þórhallur Þorsteins er ekki nógu góður til að stýra klósettbyggingum fyrir brotabrot af kostnaði ríkis vegna þess að þau þurfa í ferli og nefndir og hönnun þá er hugmyndin um náttúruvernd og uppbyggingu orðin beygluð og afskræmd.

En. Að flokkar nokkrir ætli núna að nota þetta mikilvæga málefni sem gjallarhorn út í hóp reiðra kjósenda (popúlismi) finnst mér ótækt. Til þess er málefnið of mikilvægt.

Ég býð mig fram fyrir Pírata og frábið mér að það séu bara þeir flokkar sem stökkva á málefnið núna í atkvæðaveiðum séu þeir einu sem láta sig málið varða. Það frumvarp sem nú um ræðir er bara handónýtt með öllu og því eru Píratar sammála.

Gagnkvæm virðing allra sem raunverulega vilja hálendi okkar gott er mikilvæg en innkoma virkjunarpopúlista er algerlega óþörf í þeirri vinnu.

Það er og hefur alltaf verið hlutverk Pírata að virkja lýðræðið og þetta málefni er mjög gott dæmi um það. Þjóðgarður er til einskis ef ekki er fyrir fólkið sem þekkir vel til og raunverulega hefur haft hag af því að hugsa vel um hálendið okkar.

Og nei! Það á ekki að vera hægt að setja á þjóðgarð og breyta svo öllum forsendum eftir á og bola hagsmunaaðilum frá borðinu.

Og nei! Það er engin lausn að hafa enga raunverulega hugmynd um málefnið heldur segja bara á tyllidögum: Við erum á móti svo nokkur atkvæði detti í kassann.

Hér er bara vel hægt að nota klárt og gáfað fólk til að finna lausn fyrir náttúruna OG fólkið sem notar hana.

Höfundur er í öðru sæti Pírata í Norðausturkjördæmi, fjallageit, veiðikona, kindaeltari og kofaskjáta.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.