Er nóg til og meira frammi?

Þegar við krakkarnir komum til ömmu Nennu í Framkaupstað fyrir margt löngu, þá bar hún kökur og kruðerí á borðið og sagði: „Fáið ykkur elskurnar, það er nóg til og meira frammi.“

Mér verður stundum hugsað til þessara orða þegar ég sé og heyri stjórnmálamenn stíga á stokk og tala af miklum þunga um mikilvægi þess að koma á laggirnar hinum og þessum stofnunum eða fjölga starfsmönnum í öðrum. Allt í nafni þeirrar nauðsynjar að auka eftirlit og yfirsýn yfir okkur borgurunum. Skattgreiðendur, eins og ætíð, sitja uppi með kostnaðinn. Það virðist sem stjórnmálamenn telji að hjá skattgreiðendum, heimilunum og fyrirtækjunum í landinu sé nóg til og meira frammi.
Ríkissjóður fæst við snúin verkefni þessi dægrin. Þótt fáir geti sett sig í spor Grindvíkinga er eitt alveg víst; þjóðin stendur að baki þeim í einu og öllu. Umræða um viðbrögð við málefnum Grindavíkur endurspeglar vel hvernig margir stjórnmálamenn hugsa, eða mætti kannski segja; hugsa ekki.
Engin stjórnmálamaður telur að mæta verði óvæntum útgjöldum með því að sýna aðhald í opinberum rekstri. Þeir sem veigra sér við að nefna hlutina réttum nöfnum tala um að „styrkja tekjustofna“ en ekki skattahækkun sem þetta heitir á mannamáli. Engin veit hversu mikið það mun kosta að koma Grindvíkingum í var og gera við innviði. Tugir milljarðar króna hið minnsta. Enginn stjórnmálamaður hefur viðrað hugmyndir til sparnaðar á þessum tímum.
Það virðist vera náttúrulögmál að ef stofnunum fjölgar ekki á hverju ári, þá virðast þær sem fyrir eru þenjast út, nema hvort tveggja sé. Almenningur áttar sig illa á því hvernig skattgreiðslum þeirra er raunverulega varið. En oft og tíðum læðist inn, ein og ein, „lítil“ stofnun sem stjórnmálamönnum finnst alveg lífsnauðsynleg. Og í raun ótrúlegt hvernig samfélagið komst af án þeirra. Gott dæmi um þetta eru Fjölmiðlanefnd og Neytendastofa. Samtals kosta þessar tvær stofnanir skattgreiðendur tæpar 250 milljónir á ári samkvæmt fjárlögum. Það má alveg ætla að ný Mannréttindastofnun, ef af verður, muni kosta að minnsta kosti 150 – 200 milljónir á ári. Að sama skapi finnst mörgum það stórsniðug hugmynd að skattgreiðendur greiði rúma 3,6 milljarða króna fyrir að planta trjám. Á sama tíma og sjálfstæðir skógarbændur um allt land stunda trjárækt. Einhver myndi halda að þarna væri svigrúm til aðhalds.
Við höfum komið á laggirnar hinum og þessum nefndum í leiðinni, og þær eru víst ekki fríar, frekar en hádegisverðurinn góði. Gott dæmi er Úrskurðarnefnd Umhverfis – og Auðlindamála sem kostar tæpar 189 milljónir á ári. Þá er ótalið milljarða tjónið sem úrskurðir nefndarinnar hafa haft á fjárfestingar og innviðauppbyggingu. Þrátt fyrir frjálsa fjölmiðlun, miðlun afþreyingarefnis á streymisveitum og þar frameftir götunum tútnar Ríkisútvarpið út á hverju ári og mun þurfa sexþúsund og eitthundrað milljónir í framlög frá þjóðinni til að reka sig. Þá eru ótaldar auglýsingatekjurnar. Dæmin eru óteljandi um hvar mætti bera niður og endurhugsa hvernig farið er með almannafé.
Er í alvörunni til of mikils mælst af skattgreiðendum að stjórnmálamenn sýni þá lágmarks kurteisi að ganga um skattfé af virðingu og hætti að ganga út frá því að vasar heimila og fyrirtækja séu botnlaust hyldýpi sem endalaust sé hægt að ganga í?

Jens Garðar Helgason er aðstoðarforstjóri á Eskifirði

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.