Eru Austfirðingar eintómir vitleysingar?

Jón Knútur Ásmundsson skrifar:   Ég á kunningja sem á kunningja sem eitt sinn þekkti Gísla heitinn á Uppsölum í Selárdal. Gísli var, eins og þið munið eflaust, einsetumaður og hafði, svo maður orði það nú pent, ekki tekið þátt í lífsgæðakapphlaupi Vesturlanda eftir seinna stríð. Eða þannig.

 

Hann þurfti ekki að kaupa neitt annað en kaffi og hafði aldrei séð banana (eða var það mangó?) og fyrir vikið var hann afgreiddur sem eitt af furðum veraldar í Stiklum Ómars Ragnarssonar. Þjóðin sat í sófanum fyrir framan sjónvarpið og horfði opinmynnt á Ómar sýna okkur manninn sem kom algerlega ómengaður aftan úr grárri forneskju. Gísli var „ekta“ eins og sagt er og minnti þjóðina á hversu langt hún var komin frá moldarkofunum. „Hjúkk,“ sögðu íslenskir áhorfendur og önduðu mikið léttar.

 

En þessi kunningi kunningja míns hafði aðra sögu að segja af Gísla. Sá hafði kynnst honum persónulega. Ekki í gegnum sjónvarpið. Ekki í gegnum augu Ómars Ragnarssonar. Þessi kunningi kunningja míns kannaðist við ýmislegt sem kom fram í myndinni. Gísli hafði vissulega ekki séð suma ávexti en þessi kunningi kunningja míns hafði hreinlega aldrei pælt í þessu. Kunningi kunningja míns fannst Gísli bara ágætis náungi, ágætlega lesinn og gáfaður. Talaði svolítið skringilega en hann var fyrir lifandis löngu hættur að spá í það. Gísli talaði bara eins og Gísli talaði. End of story. Í augum kunningja kunningjans var Gísli bara venjulegur maður, sérstakur náttúrulega, en fyrst og fremst bara venjulegur maður sem kunni ótal sögur og var, ótrúlegt en satt, mikill húmoristi. Þessum eiginleikum var sleppt úr myndinni því í augum Ómars var Gísli frík. Og frík eru ekki með gott skopskyn. Það passar hreinlega ekki saman. Annað hvort er maður frík eða spaugari. Ekki hvorttveggja í senn.  

 

Svona mynd, eins og Ómar gerði um Gísla, þar sem allt það skrýtna er dregið fram og stillt upp fyrir framan myndavél, væri hægt að gera um okkur öll. Um mig og þig og ekki síst um sjálfan Ómar Ragnarsson. Og svona þegar ég hugsa útí það væri afskaplega gaman að sjá svona mynd um hann Ómar. Er Ómar Ragnarsson raunverulegur eða er hann bara djók eins og Sylvía Nótt og Borat og Bubbi Morthens? Hvað gerist eiginlega þegar myndavél er ekki beint að Ómari? Slokknar á honum?

 

Ástæða þess að ég velti fyrir mér þessari „ímynd“ Gísla á Uppsölum í dag er kvikmyndin Draumalandið eftir Andra Snæ Magnason og Þorfinn Guðnason sem frumsýnd var fyrir nokkrum dögum. Ég gef mér að þið þekkið þessa kvikmynd og vitið nokkurn veginn um hvað hún er.

 

Fram skal tekið að ég hef ekki séð Draumalandið. Aðeins lesið bókina og heyrt talað um myndina. Ég tel mig vita að ekki er rætt við neinn Austfirðing í myndinni sem þó hefði getað útskýrt sjónarmið margra, en ekki allra, Austfirðinga í Kárahnjúkamálinu. Ég held að hvergi komi fram í Draumalandinu að ástandið sem margir kalla kreppu í dag, og lýsir sér í ótraustu atvinnuástandi og sífellt verðminni fasteignum, var daglegt hlutskipti margra Austfirðinga og hafði verið svo um árabil. Jafnvel áratugabil.

 

Í Draumalandinu eru Austfirðingar sýndir. Þeir eru notaðir sem dæmi svo höfundar Draumalandsins geti sýnt fram á hversu brjálæðislega frek og vitlaus mannskepnan getur orðið þegar veifað er fyrir framan hana seðlabúnti. Þeir eru notaðir sem tákn um græðgi og þröngsýni. Um nesjamennsku.

 

Því skal haldið til haga að Austfirðingar ERU vitlausir og þeirri fullyrðingu til stuðnings má tína margt til. Þeir voru til dæmis ekki þvingaðir til að fjölmenna á aðalfund Náttúruverndarsamtaka Austurlands svo þau mætti yfirtaka og breyta samþykktum virkjunarsinnum („okkur“) í hag. Og ungmennin voru ekki kúguð til að grýta eggjum í tjaldbúðir mótmælenda um árið. Þau gerðu það af fúsum og frjálsum vilja. Framkvæmdu það sem hinir fullorðnu hugsuðu.

 Þetta eru aðeins tvö dæmi um heimskuna og vitleysuna sem viðgekkst á þessum árum. Dæmin eru fleiri og við vitum það öll.

En þetta segir ekki alla söguna. Ekki einu sinni hálfa því Austfirðingar eru líka klárir og skynsamir og meira að segja eru á meðal þeirra andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar og álvers. Og það eru meira að segja til (og sú staðreynd gerir þessa sögu enn flóknari og mótsagnakenndari) klárir og skynsamir Austfirðingar sem studdu Framkvæmdina. Hugsið ykkur bara!

Þegar nánar er að gáð kemur nefnilega í ljós að eitt útilokar ekki annað. Fólk er ekki, þrátt fyrir að öðru sé oft haldið fram, annað hvort grátt eða grænt. Það er bara svo djöfulli erfitt að sýna fram á það í kvikmynd sem má ekki vera lengri en tvær klukkustundir! Þess vegna er auðveldara að nota Austfirðinga sem tákn um græðgi og heimsku. Það er einfaldara.

Stutt og laggott: Við erum vondi gæinn sem góði gæinn þarfnast. Án Austfirðinga væri ekki hægt að segja söguna um Draumalandið.

Maður verður að vona að fólkið sem sér myndina og hristir hausinn yfir heimskunni í okkur eigi kunningja sem veit betur. Að þrátt fyrir eggjagrýtara og menn sem „verða að drepa eitthvað“ (svo vitnað sé í nýlega sænska frétt um mjölvinnslu á Eskifirði) séu Austfirðingar ekki bara eintómir vitleysingar.

(Samfélagsspegill Austurgluggans 17. apríl 2009)

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.