Farsæld grunnskólabarna og nýtt fyrirkomulag í fræðslumálum – Áskorun til fræðsluyfirvalda í Fjarðabyggð
Grunnskólinn sinnir mikilvægu hlutverki þegar kemur að velferð barna. Skólinn hefur sérstöðu sem opinber stofnun vegna þess að hann er fjölmennur vinnustaður starfsfólks sem valdi sér þann starfsvettvang og nemenda sem hafa ekki val um annað en að mæta í skólann lögum samkvæmt.Það gengur á ýmsu á slíkum vinnustað sem kæmi spánskt fyrir sjónir á flestum öðrum vinnustöðum. Einn nemandi skemmir vinnugögn því honum hugnast ekki verkefnið, annar kastar til borði því hann á erfitt með að stjórna tilfinningum sínum og enn einn segir kennaranum sínum að fara til helvítis. Skiptum út orðinu „nemandi“ fyrir „starfsmaður“ og hugsum um hversu líklegt er að slíkir starfsmenn fengju að halda starfinu sínu.
Í grunnskóla eru engin inntökuskilyrði fyrir nemendur og þeim er ekki sagt upp þótt þeir brjóti af sér, sinni ekki náminu eða stuðli að slæmum starfsanda. Í staðinn er unnið með nemendum að betri líðan og hegðun og þar eru skilningur, traust og væntumþykja í forgrunni. Slík verkfæri fást ekki keypt heldur verða þau til þegar starfsmaður á í daglegum samskiptum við barnið.
Óþarfi er að fjölyrða um ábyrgð starfsmanna grunnskóla og álag í starfi burtséð frá þeim áskorunum sem tengjast hegðun og líðan nemenda. Skólastofur eru löngu hættar að hafa gluggaröð, miðröð og dyraröð þar sem nemendur sitja og gera sömu stafsetningaræfinguna. Ég hvet þau sem vilja kynna sér hugmyndaauðgi, helgun og nýsköpun í skólastarfi að glugga í tímaritið Skólaþræði sem aðgengilegt er á netinu.
Grunnskóli Reyðarfjarðar er vinnustaður rúmlega 200 nemenda, tólf umsjónarkennara, níu stuðningsfulltrúa auk sérgreinakennara, sérkennara, skólaliða, þroskaþjálfa, sjúkraliða og húsvarðar sem mynda yfir 40 manna starfshóp. Sterkt stjórnendateymi sem samanstendur af skólastjóra, aðstoðarskólastjóra og deildarstjóra sérkennslu heldur utan um og styður starfshópinn og leiðir faglegt starf skólans ásamt því að vera ávallt viðbúið að bregðast við þegar mál krefjast skjótra úrlausna, til dæmis að hjálpa barni í flogi eða leysa úr tilfallandi ágreiningi eftir frímínútur.
Undir faglegt starf má til dæmis telja forvarnir og starfshætti gegn einelti og ofbeldi og aðgerðir sem styðja við jákvæðan skólabrag. Stjórnendateymið heldur einnig utan um sértækan stuðning en hann er skilgreindur í lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna (farsældarlögunum) sem aukin aðstoð þegar barn hefur afmarkaða þörf fyrir hana, til dæmis vegna námsörðugleika, hegðunarvanda eða afleiðinga eineltis.
Og þar með er komið að kjarna málsins. Farsældarlögin hafa að meginmarkmiði, skv. 1. gr. laganna „að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana“ og að þau sem bera ábyrgð samkvæmt lögum þessum skulu fylgjast með velferð barna og foreldra og meta þörf fyrir þjónustu um leið og hún vaknar.
Nú hafa fræðsluyfirvöld í Fjarðabyggð tekið ákvörðun sem mun, ef hún verður ekki stöðvuð, búa til hindrun sem hefur áhrif á hversu hratt og örugglega verður hægt að bregðast við þörf á þjónustu og úrræðum fyrir nemendur. Ákvörðunin felur í sér að skerða sérfræðiþekkingu í grunnskólum Fjarðabyggðar með uppsögnum á stöðum deildarstjóra sérkennslu og aðstoðarskólastjóra allra skólanna.
Athygli vekur að í tilkynningum Fjarðabyggðar varðandi ákvörðunina er hvergi vísað í farsældarlögin fyrir utan að gert er ráð fyrir að ráðinn verði verkefnastjóri sem sinni starfi tengiliðar farsældar. Hins vegar er gerð grein fyrir því að fyrsti áfangi breytinganna sé að „huga að breytingum á yfirbyggingu og stjórnun skólanna“. Mætti því draga þá ályktun að með ákvörðun um nýtt fyrirkomulag í fræðslumálum í Fjarðabyggð komi ekki einungis í ljós vanþekking fræðsluyfirvalda í Fjarðabyggð á starfi grunnskóla heldur einnig á viðamiklu hlutverki grunnskólans sem fyrsta stigi þjónustu í þágu farsældar barna.
Enn er tækifæri fyrir fræðsluyfirvöld í Fjarðabyggð að snúa við og vinna að breytingum á skólastarfi af fagmennsku og með farsæld barna að leiðarljósi. Ég skora hér með á þau að nýta það tækifæri.
Höfundur er tengiliður farsældar í Grunnskóla Reyðarfjarðar