Fjölskyldur í landinu og lánasjóðir taki saman á vanda heimila
Gunnar Þór Sigbjörnsson skrifar: Í dag eru mikið eignabál í gangi á eignum landsmanna og er fólk að sjá eignarhlut sinn hverfa vegna okurvaxta og verðbólgubáls. Það liggur fyrir að ef ekkert verður að gert er mikil hætta á því að fólk gefist upp og hætti að borga og munu þá lánastofnanir sem eiga þessi lán verða af miklu fjárstreymi vegna þessa og eignast hús í bunkum sem er raunveruleg ógn við alla.
Dæmi: Jón Jónsson á þetta fína hús; Hann skuldar í þessu húsi í dag 25 milljónir en þessi tala hefur hækkað mikið síðustu mánuði og ef fer sem fram horfir þá mun eignarhlutur Jóns smám saman hverfa vegna lækkandi fasteignaverðs og hækkandi áhvílandi láns, þannig að það vinnur allt gegn Jóni með hans eignarhlut, og á endanum mun Jón sá sér hag í því að hætta að borga og afhenda lykla af húsinu.
Ég vil að við skoðum þann möguleika að húseigandi og lánasjóður taki saman höndum og geri með sér tímabundinn samning:
Lausn Jóns felst í því að hann gerir samning við lánasjóðinn um innlausn á veðhluta sem lánasjóðurinn á í húsinu til ákveðins tíma, t.d. 2 ár og mun þá lánasjóðurinn eiga eignarhlut uppá 25.000.000 í húsinu sem metið er á 40.000.000 en þetta gæti verið ca 65% af eignarverðmæti á þessu húsi. Það sem gerist við þennan gjörning er að Jón losnar undan láninu þennan tíma og eignarhlutur Jóns verður tryggður á sama hátt og eignarhlutur lánasjóðsins. Fyrir nýtingu á eign lánasjóðsins gerir Jón svo leigusamning við sjóðinn á ákveðnu gengi og mun þá greiða leigu sem tekur mið af eignarprósentu sjóðsins í húsinu sem er í þessu dæmi 65%.. Samningur þessi yrði svo endurskoðaður að 2 árum liðnum og þá með kaup Jóns á hlut sjóðsins að öllu leyti eða hluta.
Hver er svo ávinningurinn? Hann er sá að í stað þess að lánasjóðurinn missi mögulega greiðslur frá Jóni þá býr hann til hvata fyrir Jón að halda áfram að borga af húsinu, núna tímabundið með leigugreiðslum, og búa áfram í því, en hvatinn fellst í verndun eignarhluta Jóns í þessum samningi.
Einnig má sjá fyrir sér að ef Jón vill selja þá gæti hann selt samning sinn til þriðja aðila og sé ég fyrir mér að hús með svona samningum gætu verið eftirsótt vara og myndi þá þriðji aðili borga Jóni fyrir sinn hlut og taka við leigusamningi sem gerður var og gætum við mögulega séð hreyfingu fara af stað á húsnæðismarkaði samhliða þessari aðgerð.
Með þessari aðferð græða báðir aðilar þar sem tap sjóðsins á greiðslu verðtryggingar af láninu eru í raun léttvægar í samanburði við það tjón ef Jón gefst upp og hættir að borga
Gunnar Þór Sigbjörnsson Framsóknarmaður á Egilsstöðum .