Fjölmenningarsamfélag er verðugt markmið

Þriðjudaginn 23. júní, frá klukkan 14:00 til 16:30, mun Austurbrú standa fyrir málþingi í Egilsbúð, Neskaupstað um málefni fólks af erlendum uppruna. Tilgangur þess að auka vitund Austfirðinga um stöðu þessa hóps sem telur um ellefu prósent íbúa á Austurlandi og mun að öllum líkindum stækka á næstu árum. Í yfirskrift málþingsins er spurt hvort Austurland sé fjölmenningarlegt samfélag og er ætlunin að beina sjónum að stöðu innflytjenda, upplifun þeirra og reynslu af íslensku samfélagi.

Aðstæður ólíkar

Mörg okkar hafa yfirgefið Ísland tímabundið af einhverjum ástæðum, ef til vill sinnt vinnu erlendis eða sótt nám og þekkjum því af eigin raun hvernig við þurfum að aðlagast öðru samfélagi, annarri menningu og öðrum siðum. Þessu fylgir rótleysi, tengslanetið raskast og ýmis leikni og færni, t.a.m. í samskiptum við stofnanir samfélagsins og annað fólk, takmarkast þegar við getum hvorki tjáð okkur á móðurmáli okkar né tekið við upplýsingum á því. Svona staða getur haft mjög mikla þýðingu fyrir líf útlendings án þess að heimamaðurinn átti sig endilega á því.

Að þessu sögðu er rétt að taka strax fram að aðstæður fólks af erlendum uppruna geta verið mjög ólíkar innbyrðis. Hvatinn á bak við veru þess á Íslandi er ekki endilega sá sami þótt leitin að betra lífi sé oftast ástæða þess að fólk flytur og sest að í framandi landi.

Samruninn á ábyrgð beggja

Hugtakið fjölmenningarlegt samfélag er skilgreint sem samfélag þar sem fjölbreytni ríkir, fólk af mismunandi uppruna eða menningarsvæðum býr saman í einu samfélagi, ber virðingu fyrir hvert öðru og hefur samskipti sín á milli. Eðlilegt er að í slíku samfélagi fái allir hópar að halda sinni eigin menningu, tungumáli og einkennum en tileinki sér á sama tíma ríkjandi menningu.

Í mínum huga er fjölmenningarlegt samfélag verðugt markmið fyrir Austfirðinga en til að svo geti orðið verða allir að búa við jöfn tækifæri til að taka þátt í lýðræðislegu samfélagi. Einungis þannig tryggjum við að fólk af erlendum uppruna geti orðið félagslega virkt og sett mark sitt á samfélagið.

Blómstrandi fjölmenningarsamfélag er því á ábyrgð allra og að mínu viti er gríðarlega þýðingarmikið fyrir okkur öll að vel til takist. Saga Austurlands – og raunar Íslands – sýnir að erlend áhrif hafa verið jákvæð fyrir íslenskt samfélag, menningu og atvinnulíf. Fjölmenning elur af sér umburðarlynt fólk og ég trúi því að fólki líði vel í opnu og víðsýnu samfélagi. Þegar fólki líður vel lætur það að sér kveða og þannig getur fjölmenning leitt til þróunar og framfara á öllum sviðum tilverunnar.

Stækkandi hópur

Á Austurlandi hefur fólki af erlendum uppruna fjölgað á síðustu árum og er nú (fyrsta og önnur kynslóð) um ellefu prósent íbúa landshlutans. Í sumum þéttbýliskjörnum Austurlands er þetta hlutfall mun hærra, t.d. hátt í tuttugu prósent á Eskifirði og Reyðarfirði.

Þessi hópur er ekki einsleitur m.t.t. menntunar, reynslu, menningar, tungumáls eða upprunalands en Austfirðingar eru í dag frá fimmtíu löndum. Flest fólk af erlendum uppruna kemur frá Póllandi eða um sextíu prósent miðað við tölur frá árinu 2017. Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar við leitum úrræða og lausna fyrir fólk sem á mögulega ekkert annað sameiginlegt en það að hafa ekki íslensku að móðurmáli.

Við hjá Austurbrú tölum af nokkurri reynslu um þessi mál þótt þau hafi mögulega ekki hlotið eins stóran sess hjá okkur og vera skyldi. Stofnunin hefur m.a. haft veg og vanda af íslenskunámskeiðum fyrir útlendinga og á síðustu árum hefur hún haft frumkvæði að því að rannsaka stöðu fólks af erlendum uppruna í landshlutanum. Okkar stefna er að gera enn betur í þessum málum á næstu misserum og leggja okkar af mörkum svo að hér geti ríkt blómstrandi fjölmenning.

Það skiptir Austurland máli.

Ég vona að sem flestir sjái sér fært að mæta á málþingið í Neskaupstað. Allir eru velkomnir.

Höfundur er framkvæmdastjóri Austurbrúar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.