Flúðu fallið
Karlalið Fjarðabyggðar og Hattar hafa tryggt áframhaldandi veru sína í 1. og 2. deild næsta sumar.
Höttur náði stigi af 2. deildarmeisturum ÍR á Vilhjálmsvelli í dag. ÍR-ingar komust yfir strax í byrjun leiks en Anton Ástvaldsson og Jóhann Klausen skoruðu tvö mörk sem komu Hetti yfir fyrir leikhlé. ÍR-ingar minnkuðu muninn kortéri fyrir leikslok.
Fjarðabyggð vann sinn fyrsta leik á heimavelli síðan í lok maí þegar liðið lagði Selfoss 2-1 í skrautlegum leik á Norðfjarðarvelli á föstudagskvöld. Selfyssingar þurftu sigur til að halda örðu sætinu, sem veitir sæti í úrvalsdeild að ári, en Fjarðabyggð vildi forðast fallið.
Srdjan Rajkovic, markvörður Fjarðabyggðar, var örlagavaldur leiksins. Hann varði vítaspyrnu Selfyssinga í stöðunni 0-0 og skoraði sigurmark Fjarðabyggðar úr víti þegar sjö mínútur voru eftir.
Sveinbjörn Jónasson kom Fjarðabyggð yfir á 35. mínútu og hefði getað komið skorað annað mark fyrir hlé en skaut í stöng úr vítaspyrnu sem hann vann sjálfur. Selfyssingar voru einum færri eftir að Boban Jovic var rekinn út af fyrir tvö gul spjöld. Þeim tókst að jafna á 77. mínútu úr vítaspyrnu en sex mínútum síðar kom Rajkovic Fjarðbyggð yfir.
Í uppbótartíma skoruðu Selfyssingar en markið var dæmt af vegna bendingar aðstoðardómara. Upp úr sauð í kjölfarið. Ingólfi Þórarinssyni, leikmaður Selfoss, fékk sitt annað gula spjald fyrir kjaftbrúk. Ómar Valdimarsson, starfsmaður Selfoss, fékk einnig rautt spjald og sömuleiðis Þórður Guðmundsson, liðsstjóri Fjarðabyggðar.