Forsendur Fjarðarheiðargangna

Niðurstaða verkefnahóps um undirbúning að ákvarðanatöku um Seyðisfjarðargöng sem skipaður var af þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra var birt í júní 2019 með skýrslunni: Seyðisfjarðargöng – Valkostir og áhrif á Austurlandi.

Markmið verkefnisins var að undirbúa ákvörðun um samgöngubót sem best væri til þess fallin að rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar, styrkja byggð og atvinnulíf á Seyðisfirði og Austurlandi. Verkefnahópurinn lét vinna tvær sjálfstæðar úttektir til að styðja betur við ályktanir og niðurstöður sínar, annars vegar um samfélagsleg áhrif jarðgangagerðar á svæðinu og hins vegar um veðurfarslegar aðstæður við mismunandi jarðgangakosti. Í niðurstöðu kemur fram:

„Það er mat verkefnishópsins að með hliðsjón af ávinningi samfélagsins og atvinnulífsins á Seyðisfirði og Austurlandi í heild sé vænlegast að fylgja áliti Alþingis, Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi og þorra íbúa og fulltrúa atvinnulífs og samfélags á svæðinu og rjúfa einangrun Seyðisfjarðar með jarðgöngum undir Fjarðarheiði sem fyrsta áfanga og styrkja samfélagið á Austurlandi öllu með göngum milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar í síðari áfanga. Hópurinn leggur mikla áherslu á að ákvörðun um samgöngubætur með hringtengingu liggi fyrir eins fljótt og auðið er og að ráðist verði í framkvæmdir sem fyrst til að jákvæð áhrif á þróun byggðar og atvinnulífs skili sér ekki of seint.“

Í úttekt KPMG sem unnin var fyrir hópinn var fjallað um almannavarnir og öryggi og kemur þar fram: „Með hringtengingu myndi öryggi í samgöngum aukast mikið fyrir alla íbúa svæðisins. Ekki þyrfti lengur að aka neina fjallvegi til að komast á milli staða. Aðgangur að heilbrigðisstofnunum myndi batna og tengingar við flug og siglingar yrðu öruggari. Slík tenging myndi styðja við samstarf á öllu Mið-Austurlandi. Aðgangur að viðbragðsaðilum, heilbrigðisstofnunum o.fl. yrði traustur allt árið og ófærð hefði ekki teljandi áhrif.“

Svæðisskipulag Austurlands var samþykkt af öllum sveitarstjórnum Austurlands síðastliðið haust með sátt. Þar er í fyrsta sinn unnið svæðisskipulag fyrir landshlutann og óhætt að segja að þar hafi mikið gæfuskref verið stigið og með því sé sett fram stefna til framtíðar.

Í kafla Á. stefna um samgöngur kemur fram:

„Áhersla verði lögð á að byggja Fjarðarheiðargöng, Seyðisfjarðargöng og Mjóafjarðargöng með það að markmiði að hringtengja miðsvæði Austurlands. Unnið verði að því að aðrar jarðgangaframkvæmdir, sem taldar eru nauðsynlegar, verði settar á 15 ára samgönguáætlun og síðan 5 ára aðgerðaáætlun hennar.

Slíkum ákvörðunum sem settar eru í skipulag sveitarfélaga getur Alþingi ekki litið fram hjá og ber að taka mið af þegar teknar eru ákvarðanir um málefni landshlutans á þingi, td. við gerð samgönguáætlunar.“

Í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis frá 10. júní 2020 kemur fram að með þeirri samgönguáætlun sem síðast var samþykkt á þann Alþingi 12. júní 2020 er eina jarðgangaverkefnið í áætluninni, jarðgöng á Austurlandi. „Meirihlutinn leggur áherslu á að jarðgangagerð á Austurlandi skilar ekki fullum ávinningi nema verkefnið verði unnið sem samfelld heild sem skilar hringtengingu vega í landshlutanum. Því þarf seinni áfanginn, göng milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar, að fylgja í kjölfar Fjarðarheiðarganga. Raunar gæti vinna við göngin milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar hafist áður en vinnu við Fjarðarheiðargöng er að fullu lokið. Meirihlutinn leggur því áherslu á að rannsóknum og undirbúningi við hringtenginguna ljúki sem fyrst svo að hægt verði að hefja framkvæmdir um leið og fjármagn er fyrir hendi.“

Undirritaðir oddvitar í Múlaþingi setja þá sjálfsögðu og eðlilegu kröfu að unnið sé eftir okkar óskum sem staðfestar hafa verið með niðurstöðu verkefnahóps, meirihluta samgöngunefndar sem og með skipulagi og vilja hér hvetja þingmenn til að tryggja að Fjarðarheiðargöng fari sem fyrst í útboð enda eru það einu göngin sem eru tilbúin og hönnuð. Jafnframt verði farið á fullt í rannsóknir og undirbúning Seyðisfjarðarganga og Mjóafjarðarganga.

Berglind Harpa Svavarsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks
Helgi Hlynur Ásgrímsson, oddviti Vinstri grænna
Hildur Þórisdóttir, oddviti Austurlistans
Jónína Brynjólfsdóttir, oddviti Framsóknar

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.