Frá velsæld til vesældar

Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor skrifar um efnahagsleg áhrif stórframkvæmdanna á Austurlandi:

Íslenska hagkerfið stendur nú frammi fyrir harkalegasta áfalli síðari tíma. Spáð er 10% samdrætti landsframleiðslu á næsta ári, allt að 25% samdrætti ráðstöfunartekna heimilanna og samsvarandi samdrætti einkaneyslu og að meðalatvinnuleysi verði 8-10%.   Atvinnuleysi í einstökum mánuðum gæti hæglega orðið 20-25%.  Kaupmáttarleiðréttar þjóðartekjur á mann verða litlu hærri en á Spáni og við verðum nálægt því að vera hálfdrættingar á við þá þjóð sem hæstar tekjur hefur á OECD svæðinu.

Þetta eru mikil umskipti og eðlilegt að spurt sé um skýringar á þessu hruni lífskjara. Eins og ávallt þegar mikil áföll dynja yfir þá eru skýringarnar margar, sumar augljósar, aðrar ekki. Það dylst til dæmis engum að íslensku bankarnir voru orðnir of stórir fyrir íslensku krónuna. Það dylst heldur engum að íslenskar eftirlitsstofnanir á borð við Seðlabanka, fjármálaráðuneyti og Fjármálaeftirlit sinntu ekki lögboðnu eftirlitshlutverki sínu og gerðu ekki þær ráðstafanir sem þær hefðu átt að gera til að aðlaga stærð bankanna að stærð hagkerfisins og gjaldeyrisvarasjóðsins eða að aðlaga stærð gjaldeyrisvarasjóðsins að stærð bankanna. Þetta eru embættisafglöp.

Á árunum 1998 til 2003 voru gerðar grunnbreytingar á íslensku efnahagslífi sem kölluðu á vel vakandi eftirlitsstofnanir. Ríkisviðskiptabankarnir Landsbanki og Búnaðarbanki voru einkavæddir og horfið frá fastgengisstefnu og gengi krónunnar látið fljóta með verðbólgumarkmið sem nokkurs konar flotakkeri. Það er þekkt lögmál að nýeinkavæddir bankar fara í mikla markaðshlutdeildarbaráttu. Bankar í baráttu um markaðshlutdeild eru áhættusæknir en ekki áhættufælnir. Þess vegna þurfa eftirlitsstofnanir að standa vel í ístöðunum þegar svo háttar. Reyndar má segja að sú ákvörðun að einkavæða báða bankana á svipuðum tíma hafi ýtt enn frekar undir markaðshlutdeildarbaráttu og áhættusækni.Sofandi eftirlitsstofnanir leika hlutverk sprengiefnisins í því efnahagslega drama sem við upplifðum og upplifum. Áhættusæknir bankar leika hlutverk hvellhettunnar. En kveikiefnið sem hratt öllu af stað reyndist vera stórframkvæmdirnar á Austurlandi.Ákvarðanir um Kárahnjúkavirkjun og byggingu álvers við Reyðarfjörð voru teknar árið 2003. Um var að ræða langstærstu framkvæmd Íslandssögunnar. Vitað var að á framkvæmdatímanum yrði mikill eftirspurnarþrýstingur í íslensku efnahagslífi. Þar sem Seðlabankinn var bundinn af samningi sínum við ríkisstjórnina um að haga vaxtastefnu sinni í samræmi við verðbólgumarkmiðið voru kaupendur og seljendur á gjaldeyrismarkaði sammála um að gengi krónunnar myndi hækka. Enda varð sú raunin.  Sumir, undirritaður þar á meðal, töldu að stjórnvöld myndu bregðast við auknum eftirspurnarþrýstingi með því að draga úr opinberum útgjöldum og/eða hækka skatta.  Undirritaður skýrði til dæmis að Ísólfur Gylfi Pálmason  framsóknarmaður, skyldi ekki þyggja stól formanns fjárlaganefndar þegar honum stóð það til boða, með því að Ísólfur Gylfi sæi ekki fram á annað en niðurskurð opinberra útgjalda og skattahækkanir. Það er skemmst frá því að segja að stjórnvöld brugðust þessum væntingum um skynsamleg viðbrögð.  Þvert á móti voru skattar ítrekað lækkaðir og opinber útgjöld fremur aukin en minnkuð.  Kaupendur og seljendur á gjaldeyrismarkaði sáu þetta og vissu að Seðlabanki myndi þurfa að hækka stýrivexti enn og aftur, sem og varð raunin.  Og ekki nóg með þetta heldur hækkaði ríkisstjórnin veðheimildir Íbúðalánasjóðs og kastaði þar með einum ríkisbankanna inn í baráttuna um markaðshlutdeild á fjármagnsmarkaðnum með tilheyrandi offramboði lánsfjár og húsbyggingargleði.Framhaldið er vel þekkt.  Háir stýrivextir og hátt framkvæmdastig héldu gengi krónunnar í hæstu hæðum. Áhættusæknir bankar sóttust eftir að auka markaðshlutdeild sína. Ísland reyndist ekki nógu stórt markaðssvæði og ráðist var í útrás með sterastyrktri og útbólginni krónunni.Lok framkvæmda við álver og virkjanir á Austurlandi féllu saman við vaxandi erfiðleika á erlendum fjármálamörkuðum. Erlendir fjárfestar sáu glöggt að efnislegar forsendur sterkrar krónu voru í þann mund að hverfa í sama mund og millibankamarkaðir erlendis þornuðu upp.  Þar með hófst upphaf falls krónunnar.Eins og fyrr sagði voru stórframkvæmdirnar á Austurlandi kveikiefnið sem hratt af stað styrkingu krónunnar og áttu þar með sinn þátt í ofvexti og hruni bankanna. Áhrifin á íslenskt efnahagslíf hafa þegar verið rakin. En hvað með Austurland? Talsmenn sveitarfélaga á Austurlandi gengu fram með nokkru offorsi og látum gagnvart þeim sem leyfðu sér að spyrja spurninga um efnahagslegar forsendur framkvæmdanna á sínum tíma. Efasemdarmenn voru kallaðir óvinir Austurlands og þaðan af verri nöfnum. Það væri freistandi að svara í sömu mynt en skal ekki gert. En trú þessara ofurkappssömu sveitarstjórnarmanna var sú að fengist álver á Reyðarfjörð myndi forsenda búsetu á Austfjörðum tryggð næstu áratugi.  Það er því full ástæða til að velta fyrir sér hvaða áhrif efnahagshrunið hefur á hinar dreifðu byggðir. Það er ljóst að álverið sjálft mun starfa á fullum dampi og skaffa atvinnu fyrir sína 400 eða svo starfsmenn nema svo hörmulega takist til að botninn detti alveg úr markaðnum fyrir ál. Hins vegar er líklegt að lækkandi álverð og almennt efnahagsástand á Íslandi verði til þess að halda mjög aftur af launaþróun starfsmanna álversins þó svo laun þar haldist hlutfallslega há miðað við aðra vinnustaði í nálægum plássum. Aðrir íbúar Austurlands lenda í sömu hremmingum og allir aðrir Íslendingar. Þeir hafa þegar tapað milli 20 og 30% af lífeyrissparnaði sínum. Þeir sjá hrap kaupmáttar og sjá fjöldagjaldþrot fyrirtækja og einstaklinga. Það má velta fyrir sér hvort sjávarútvegur geti þrifist í nánasta umhverfi álversins vegna smitáhrifa frá launum í álverinu. Sama á við um ýmsar aðrar framleiðslugreinar sem ekki snúa beint að þjónustu við álverið. Líklegt er að starfsfólk í heilbrigðisþjónustunni geti 2-3 faldað laun sín með því að flytja frá austurströnd Íslands til vesturstrandar Noregs. Fáir munu standast slíkt til lengdar. Sama mun eiga við um margan iðnaðarmanninn og einnig háskólamenntað fólk annað en heilbrigðisstarfsfólk.  Þessir aðilar munu annað tveggja leita til staða á Íslandi þar sem atvinnutilboð eru líklegri eða hreinlega hressa upp á dönsku- eða enskukunnáttuna og flytja úr landi.

Verði sú sviðsmynd sem ég hér dreg upp að raunveruleika má ljóst vera að framkvæmdirnar á Austurlandi munu ekki hafa haft nein teljandi áhrif á búsetuþróun í landshlutanum til lengri tíma litið. Aftur á móti hefðu þessar framkvæmdir komið af stað óheillaþróun sem kallaði ómæld óþægindi og jafnvel hörmungar yfir mikinn fjölda manna og kvenna. Fyrir tæpum 20 árum ýtti færeyska kreppan 15% íbúanna úr landi. Vonandi verður fólksflóttinn frá Íslandi minni. Ekki þarf þó mikið ímyndunarafl til að sjá fyrir sér að fólksfækkun í einstökum plássum á Íslandi verði meiri í kjölfar íslensku kreppunnar.

  

Þórólfur Matthíasson er prófessor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands.

Þessi grein birtist í Austurglugganum 27. nóvember síðastliðinn.

Svar við henni birtist í Austurglugganum 4. desember næstkomandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.