Fullt af fótbolta í kvöld

Nóg verður um að vera fyrir austfirska knattspyrnuáhugamenn í kvöld. Öll austfirsku karlaliðin spila, þar af þrjú þeirra á heimavelli.

 

ImageÁ Eskifjarðarvelli mætast Fjarðabyggð og ÍR í 1. deild karla klukkan hálf sjö. Heil umferð verður í D riðli þriðju deildar karla. Leiknir tekur á móti Huginn, Einherji á móti Dalvík/Reyni og nyrðra mætast Völsungur og Draupnir. Allir leikirnir hefjast klukkan 20:00. Á sama tíma hefst leikur Hamars og Hattar á Grýluvelli í Hveragerði.
Á morgun mætast Selfoss og Fjarðabyggð/Leiknir í 1. deild kvenna á Eyrarbakkavelli. Leikurinn hefst 13:15.

Í gær var dregið í 64ra liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu. Ekkert austfirsku liðanna fékk heimaleik. Einherji fékk stærsta mótherjann, úrvalsdeildarlið Keflavíkur. Fjarðabyggð mætir Haukum, sem einnig eru í fyrstu deild og Höttur, sem er í annarri deild, þarf að kljást við fyrstu deildar lið Selfoss.

Fjarðabyggð og Höttur tryggðu sér áframhaldandi þátttökurétt í bikarkeppninni á þriðjudagskvöld með stórsigrum á Leikni og Sindra. Níu mörk voru skoruð í hvorum leik.

Fjarðabyggð skellti Leikni 9-0 á Eskifjarðarvelli. Högni Helgason og Ágúst Örn Arnarson skoruðu tvö mörk hvor en síðan skorðu Haukur Ingvar Sigurbergsson, Jóhann Ragnar Benediktsson, Marinó Óli Sigurbjörnsson, Daníel Freyr Guðmundsson og Guðmundur Andri Bjarnason sitt markið hver.

Á Fellavelli vann Höttur Sindra 8-1. Sindramenn léku einum færri frá 9. mínútu en voru þá þegar 1-0 undir. Vilmar Freyr Sævarsson skoraði fjögur mörk, Björgvin Karl Gunnarsson tvö og Stefán Þór Eyjólfsson og Ívar Karl Hafliðason sitt markið hvor. Stefán Þór skoraði reyndar tvö mörk í leiknum þar sem hann skoraði einnig mark Sindra, en trúlega var lítill vilji að baki því.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.