Fylgi Sjálfstæðimanna dalar í NA

Vinstrihreyfingin - grænt framboð (VG) nýtur 28% fylgis í Norðausturkjördæmi samkvæmt nýrri skoðanakönnun Capacent Gallup fyrir RÚV og Morgunblaðið. Þar á eftir koma Framsóknarflokkur með 25,6%, Samfylkingin með 21,3%, Sjálfstæðisflokkur með 20%, Borgarahreyfingin 2,8%, Frjálslyndi flokkurinn 1,7% og Lýðræðishreyfingin 0,5%.

fylgi_16_aprl.jpg

 

Í frétt mbl.is um könnunina kemur fram að fylgi VG hefur aukist verulega miðað við úrslit kosninganna 2007 en fylgi Sjálfstæðisflokks minnkað mikið. Miðað við niðurstöður skoðanakönnunarinnar fengi VG þrjá þingmenn í kjördæminu og myndi bæta við sig einum kjördæmiskjörnum þingmanni. Flokkurinn fékk 19,6% atkvæða í alþingiskosningunum 2007 og tvo kjördæmiskjörna þingmenn.

 

Framsóknarflokkur fengi tvo kjördæmiskjörna þingmenn nú eða jafnmarga og 2007 þegar flokkurinn naut 24,6% fylgis. Sjálfstæðisflokkur fengi tvo kjördæmiskjörna þingmenn og myndi tapa einum frá 2007 þegar hann naut 28% fylgis. Samfylking myndi fá tvo kjördæmiskjörna þingmenn eða jafn marga og 2007 þegar S-listi fékk 20,8% fylgi. Skipting jöfnunarsæta var ekki skoðuð miðað við niðurstöður könnunarinnar nú. Síðastur inn var 3. maður VG og næstur inn væri 3. maður Framsóknarflokks.

 

Samanburður á niðurstöðum þessarar skoðanakönnunar og greiningar á fylgi stjórnmálaflokka, sem gerð var eftir skoðanakönnun Capacent Gallup 18.-31. mars s.l., gefur til kynna að talsvert rót sé í hugum kjósenda í Norðausturkjördæmi. Þannig hefur fylgi VG minnkað úr 35,4% í marskönnuninni í 28% nú. Framsóknarflokkur hefur styrkt stöðu sína, var með 21,7% fylgi í mars en 25,6% nú. Sjálfstæðisflokkurinn hefur einnig styrkt stöðu sína. Hann var með 15,8% fylgi í mars en 20% nú. Fylgi Samfylkingar er óbreytt, 21,3% í báðum könnunum, en vikmörk S-lista voru +/- 5,2% í marskönnuninni en +/- 4,1% nú. Borgarahreyfingin naut 3% fylgis í mars en 2,8% nú.

 

Kjósendur VG sýna flokki sínum mesta tryggð í kjördæminu en 85,3% þeirra sem kusu flokkinn 2007 kváðust ætla að kjósa hann aftur nú. Af þeim sem kusu Framsóknarflokk 2007 ætluðu 74,8% að kjósa hann nú. Af þeim sem kusu Samfylkinguna 2007 ætluðu 63,8% að kjósa hana nú en einungis 57,7% þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokk 2007 ætluðu að kjósa hann nú.

 

Ríkisstjórnin naut stuðnings meirihluta þeirra sem tóku afstöðu í könnuninni nú. Þannig sögðust 54,4% þeirra styðja stjórnina og 45,6% studdu hana ekki. Afstöðu til spurningar um stuðning við ríkisstjórnina tóku 84,9%.

 

Niðurstöðurnar eru byggðar á net- og símakönnun sem Capacent Gallup gerði 13.-15. apríl s.l. fyrir Ríkisútvarpið og Morgunblaðið. Úrtakið í netkönnuninni var tilviljunarúrtak úr Viðhorfahópi Capacent Gallup en úrtakið í símakönnuninni var tilviljunarúrtak úr þjóðskrá. Heildarstærð úrtaksins var 800 manns 18 ára og eldri. Svarhlutfall var 62,9%.

 

Fylgistölur eru reiknaðar út frá svörum við þremur spurningum: "Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa?" Þeir sem voru óákveðnir voru spurðir: "En hvaða flokkur eða listi yrði líklegast fyrir valinu?" Þeir sem voru enn óákveðnir voru spurðir: "Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?" Fyrir þá sem sögðu líklegra að þeir kysu einhvern hinna flokkanna voru reiknaðar út líkur þess að þeir myndu kjósa hvern flokk, út frá svörum þeirra sem tóku afstöðu í fyrstu tveimur spurningunum.

 

http://mbl.is/media/91/1391.pdf

(mbl.is/16. apríl)

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.