Fyrsta skólastigið?
Að vera foreldri í Svíþjóð er ánægjuleg lífsreynsla. Gervallt samfélagið er margfalt, margfalt barnvænna en hið íslenska. Réttur foreldris til að vera heima vegna veikinda barns er 120 dagar á ári. Foreldraorlofið er 480 dagar sem foreldrar geta deilt á milli sín uns barnið nær átta ára aldri.Lágmarkið fyrir töku fæðingarorlofs er tvær klukkustundir svo flestir nýta það til að stytta vinnudaginn og sækja börn sín fyrr á leikskóla. Leikskólavistun fer svo alfarið eftir þörf vinnandi foreldra fyrir umönnun barna sinna, fyrir þá sem þurfa opnar leikskólinn klukkan hálf sjö að morgni og fyrir hina sem vinna seinna hafa flestir leikskólar opið til hálf sjö að kvöldi. Í mörgum sveitarfélögum er meira að segja boðið upp á næturgæslu ef foreldrar vinna á „óþægilegum tímum“, s.s. kvöld, nætur eða helgar, og geta ekki fengið barnagæslu á annan hátt.
Í hnotskurn þá er barnagæsla, þ.e. leikskóli og skóladagvist, fyrst og fremst ætlað sem þjónusta við vinnandi foreldra. Ef foreldrar eru í fríi eða heima hluta úr degi þá er ekki gert ráð fyrir að börn þeirra séu í gæslu á meðan. Ef báðir foreldrar þurfa að vinna dymbilviku, milli hátíða eða á sumrin þá bjóða sveitarfélögin upp á barnagæslu. Eins ef skipulagsdagar eru, þá er fengið afleysingafólk til að gæta barna þeirra foreldra sem ekki geta tekið frí frá vinnu.
Þetta var nokkuð sem kom okkur spánskt fyrir sjónir í fyrst eftir að við fluttum. Hafandi verið með leikskólabarn í Reykjavík, Akureyri og Egilsstöðum þá var það reynsla okkar úr öllum þessum sveitarfélögum að opnunartími leikskólanna var svo naumur að það var stanslaus streita að ná í vinnu á réttum tíma eða ná úr vinnu á leikskóla fyrir lokun. Þegar leikskólinn fór í frí varð maður bara að gjöra svo vel að laga sig að því. Staða leikskólans sem menntastofnunar var hafin yfir allan vafa.
Hugmyndin um leikskóla sem fyrsta skólastigið er langt frá því að vera gallalaus. Með því er ég ekki að segja að ekki þurfi vel menntað og þjálfað starfsfólk, síður en svo. Við skulum einnig leggja þjónustuhlutverk hans við foreldra til hliðar og einblína á börnin, hvað er mikilvægt að þau fái út úr leikskólavist? Hvaða þarfir þeirra er mikilvægast að uppfylla? Það er í rauninni bara þrennt: Líkamlegar þarfir, félagslegar og heilsufarslegar. Að þau fái staðgóðan mat, að þau fái næga hvíld og líkamlega örvun er því miður nokkuð sem of mörg börn skortir í samfélaginu. Að efla samhygð þeirra, hæfileikann að veita og taka á móti hrósi og kærleika, að treysta öðrum og að geta sagt frá i hóp. Og svo að sjálfsögðu að þroska ónæmiskerfi þeirra með því að vera útsett fyrir umgangspestum og óhreinindum í hæfilegu magni.
Hvað er leikskólinn? Númer eitt, tvö og tíu er hann lýðheilsustofnun. Númer ellefu þjónustustofnun. Skipulögð menntun… hún getur beðið þar til barnið kann að telja hærra en tólf.