Fyrsti mánuðurinn

Rétt rúmur mánuður er frá því kosið var til sveitarstjórnar í sveitarfélaginu sem hlotið hefur nafnið Múlaþing. Fljótlega að loknum kosningum gerðu Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn með sér samkomulag um meirihlutasamstarf sem undirritað var 30. september.

Þegar þetta er ritað hefur ný sveitarstjórn fundað tvisvar og flestar fastanefndir og ráð tekið til starfa. Eins og við er að búast hefur gengið á ýmsu við að hleypa nýju sveitarfélagi af stokkunum. Heilt yfir hefur það gengið vel fram að þessu enda starfsfólk innan stjórnsýslu Múlaþings samhent og lausnamiðað og hefur nálgast viðfangsefnið með faglegum hætti og fyrir það ber að þakka sérstaklega.

Í aðdraganda kosninga um sameiningu sveitarfélaganna voru þau markmið sem stefnt var að í tengslum við nýja og breytta stjórnsýslu kynnt. Þau markmið standa enn fyrir sínu svo sem um opna og skilvirka stjórnsýslu, rafræna afgreiðslu stjórnsýsluerinda, staðbundnar afgreiðslur í gömlu sveitarfélögunum og heimastjórnir.

Áherslur Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda kosninganna voru skýrar. Lögð var áhersla á að nýta tækifærið í nýju sameinuðu sveitarfélagi til þess að bæta samgöngur, efla atvinnulíf og stuðla að betra mannlífi með bættri félagsþjónustu, skilvirku stjórnkerfi og að nýtt sveitarfélag yrði forystuafl á Austurlandi. Niðurstaða kosninganna ber með sér að þessi málflutningur hafi náð eyrum kjósenda og að um það bil þriðjungur þeirra sé sama sinnis.

Gott fylgi Sjálfstæðisflokksins í kosningunum leggur fulltrúum hans í sveitarstjórn skyldur á herðar. Flokkurinn er sannarlega orðinn það leiðandi afl í sveitarfélaginu sem stefnt var að og tímabært að láta verkin tala. Að mörgu er að hyggja en þessar fyrstu vikur og mánuði er einkum tvennt sem leggja þarf áherslu á sérstaklega þ.e. útfærsla stjórnsýslunnar og gerð fjárhagsáætlunar.

Hvað varðar fjárhagsstöðu Múlaþings þá er staðan, vegna aðstæðna sem allir þekkja, breytt frá þeim forsendum sem lágu til grundvallar í aðdraganda sameiningarinnar. Þessi nýja staða og óvissan sem henni fylgir gerir það að verkum að gerð fjárhagsáætlunar er flóknari en ella en stefnt er að því að hún verði tekin til síðari umræðu 9. desember næstkomandi.

Í niðurlagi málefnasamnings meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks segir: „Ábyrgð kjörinna fulltrúa í nýju sveitarfélagi er mikil þegar kemur að því að móta hefðir og venjur í tengslum við nýjungar í stjórnskipulagi þess. Fulltrúar D- og B-lista leggja ríka áherslu á mikilvægi góðrar samvinnu og samstarfs innan nýrrar sveitarstjórnar og heita því að vinna í þeim anda með fulltrúum allra framboða, sveitarfélaginu til heilla.“

Þetta eru ekki orðin tóm. Fulltrúar flokkanna hafa þessar fyrstu vikur lagt sig fram um að eiga gott og upplýst samstarf við minnihlutann og munu halda því áfram. Að sjálfsögðu munu koma upp mál þar sem áherslur innan sveitarstjórnar verða misjafnar – fyrr mætti nú vera. Verkefnin framundan eru hins vegar brýnni en svo að smáatriði megi verða til þess að taka tíma frá því sem máli skiptir, sem er að leggja góðan grunn að framtíð Múlaþings.

Höfundur er forseti sveitarstjórnar Múlaþings


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.