Fyrstu sigrarnir
Höttur vann lið Hrunamanna í 1. deild karla í körfuknattleik á Egilsstöðum í dag. Blaklið Þróttar spilaði tvo leiki við Fylki í Neskaupstað um helgina.
Íslandsmeistarar Þróttar hófu titilvörnina ekki vel þar sem þær töpuðu fyrri leiknum gegn Fylki í gærkvöldi 0-3. Liðið hefur orðið fyrir mikilli blóðtöku, Erla Rán Eiríksdóttir, Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir og Zaharina Filipova hafa skipt um félög og Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir verður ekki með í vetur. Ungir og óreyndari leikmenn þurfa því að fylla skörð þeirra. Fylkir vann hrinurnar 21-25, 18-25 og 21-25. Nokkurrar taugaspennu gætti hjá hinum ungu leikmönnum og móttökurnar gengu illa. Miglena Apostolova var stigahæst með 17 stig.
Betur gekk í seinni leiknum í dag þar sem Þróttur vann í þremur hrinum, 25-18, 25-12 og 25-20. Miglena var aftur stigahæst með 20 stig en Kristín Salín Þórhallsdóttir, sem einnig var í liðinu í fyrra, skoraði þrettán. Liðið leikur næst 14. nóvember.
Höttur vann fyrsta leik sinn á vetrinum þegar liðið lagði Hrunamenn 87-82 í 1. deild karla í körfuknattleik.