Gæluverkefni á kostnað barnanna í Fjarðabyggð

Fyrir áramót var samþykkt fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar fyrir árið 2024 og þriggja ára fjárhagsáætlun fyrir 2025 - 2027. Skemmst er frá því að segja að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn fjárhagsáætluninni. Ástæðan er einföld. Núverandi meirihluti rekur sveitarfélagið með síauknum lántökum og gjaldskrárhækkunum en þorir á sama tíma ekki að horfast í augun við þann rekstarvanda sem sveitarfélagið er í og uppsafnaða viðhaldsþörf sem er um allt sveitarfélagið.

Fjarðabyggð er eitt öflugasta sveitarfélag landsins. Meðaltekjur eru þær hæstu á landinu með öflug fyrirtæki í iðnaði, sjávarútvegi og fiskeldi. Í kringum fjórðungur af vöruútflutningi þjóðarinnar kemur frá fyrirtækjum í Fjarðabyggð. Með þennan tekjugrunn, sem við erum öfundsverð af, er í raun ótrúlegt, og sjálfstætt rannsóknarefni, hvernig hægt er að koma sveitarfélaginu í þá stöðu sem það er í dag.

En í ljósi ofangreinds þá þykir undirrituðum sæta mikilli furðu að á meðan grunnskólabörnum á Eskifirði er keyrt í íþróttir á Reyðarfirði sökum myglu í íþróttahúsinu á Eskifirði og engir fjármunir eru settir í viðgerðir hvorki á þessu ári eða 2025 til 2027, þá er ráðstafað á þessu ári 25 milljónum í áframhaldandi endurgerð Lúðvíkshússins á Norðfirði.

Undirritaður sendi inn fyrirspurn fyrir nokkrum mánuðum um heildarkostnað Fjarðabyggðar við uppgerð Lúðvíkshússins. Þrátt fyrir ítrekanir hafa engin svör fengist. Gera má fastlega ráð fyrir því að kostnaðurinn hlaupi á nokkrum tugum milljóna. Í fyrra voru settar 25 milljónir í verkið sem dæmi, og ekki ólíklegt að hann slagi hátt í hundrað milljónir í heildina.

Tugir milljóna, jafnvel hundrað, í gæluverkefni meirihlutans á meðan að ekki er gert ráð fyrir lagfæringum á myglu í íþróttamannvirkjum. Dæmi hver fyrir sig en forgangsröðun sem þessi, lýsir ágætlega meirihluta sem er ekki neinum tengslum við rekstur og viðhald í sveitarfélaginu né við þarfir íbúanna og þá ekki síst barnanna í Fjarðabyggð.

Höfundur er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.