Gagnaveita HEF - Glötuð tækifæri eða nýja gulleggið?

Nú þegar framboðslistarnir liggja fyrir og stefnumálin og „loforðin“ eru komin á pappír er ekki úr vegi að slá einu málefni fram til umræðu og umhugsunar. Undanfarin ár hafa fjarskiptamál verið ofarlega í hugum manna og þá sér í lagi í dreifbýlinu. Ef fjarskiptamöstur eiga að virka vel, þá þurfa þau ljósleiðara. Sveitarfélagið okkar er að stækka og verður landfræðilega langstærsta sveitarfélag landsins. Þá skipta fjarskiptamál enn meira máli.

Gagnaveita HEF var formlega stofnuð/virkjuð á aðal- og hluthafafundi HEF vorið 2019. Á sama tíma var samþykktum HEF breytt í samræmi við þessa nýju veitu. Þar stendur meðal annars: „Félagið annast framkvæmd ljósleiðaravæðingar ásamt rekstri gagnaveitu og önnur verkefni í því sambandi. Jafnframt er tilgangur félagsins að eiga og reka félög í skyldum rekstri, lánastarfsemi og tengd starfsemi.“

Markmiðið með þessu var meðal annars að leggja ljósleiðara í dreifbýlið samkvæmt samningi sveitarfélagsins við Fjarskiptastofnun vegna verkefnisins Ísland ljóstengt. Að jafna fjarskiptamál dreifbýlis og þéttbýlis þannig að allir íbúar sveitarfélagsins hafi sambærilega fjarskiptaþjónustu. Að búseta og starfsemi í dreifbýlinu raskist ekki vegna lélegra fjarskipta. Til að þetta megi verða að veruleika verða fjarskiptainnviðir, sem í grunninn eru byggðir á ljósleiðurum, að vera til staðar.

Sveitarfélagið fékk góðan styrk vegna verkefnisins Ísland ljóstengt frá Fjarskiptastofnun og einnig fékkst styrkur frá Byggðasjóði. Í kjölfarið var samið við HEF um að vera samstarfsaðili sveitarfélagsins og sjá um lagningu ljósleiðara í dreifbýlið, eiga og reka.

Aðgangur að lögnum HEF

En fleira kemur til. HEF á til dæmis röra- og ljósleiðaranet sem er yfir 112 km að lengd. Gagnaveita HEF er til að mynda notuð við að stýra eins mörgum útstöðvum HEF og kostur er. Þessar útstöðvar hýsa yfirleitt dælubúnað fyrir hinar veiturnar þrjár hita-, vatns- og fráveitu og stýrt af innra neti HEF.

Í frétt RÚV í september 2015 kemur fram að tvö einkafyrirtæki á Egilsstöðum hafi samið við HEF um afnot af ljósleiðararörum HEF. Annað fór í þrot í mars 2016 en hitt fékk nýtt nafn. Síðan hefur lítið gerst í ljósleiðaramálum í sveitarfélaginu. Þar af leiðandi geta tekjur vegna afnota á ljósleiðararörum ekki verið háar en skaðinn á fjarskiptainnviðum HEF hins vegar meiri.

Það er umhugsunarefni hvers vegna svona stór fjárfesting í fjarskiptainnviðum HEF í þétt- og dreifbýli er leigt út til einkafyrirtækis sem selur takmarkaða þjónustu til íbúa. Fyrirtækið fær afnot og má nánast gera það sem það vill við fjarskiptainnviði HEF. Hvað ef við myndum leigja út vatnsveituna okkar til einkaaðila? Það væri nær að Gagnaveita HEF sæi um ljósleiðaravæðingu í sínum eigin lögnum í þétt- og dreifbýli. Það gengur illa upp að einkafyrirtæki fái að „eignast“ hluta af Gagnaveitu HEF sem er í almenningseigu. Hún er okkar íbúanna.

Annað mál er að selja fjarskiptafyrirtækjum „aðgang“ að ljósleiðarakerfi HEF svo íbúarnir geti keypt t.d. sjónvarpsþjónustu af þeim sem þeir kjósa.

Þekking og atvinna


Hitaveita Egilsstaða og Fella ehf er í 100% eigu sveitarfélagsins, sem eru jú við íbúarnir. Þrír af níu kjörnum fulltrúum í bæjarstjórn sitja í fimm manna stjórn HEF og aðrir fimm til vara, allt kjörnir fulltrúar.

Í dag er gullegg HEF hitaveitan en ef Gagnaveita HEF hefði komist á koppinn, sem er enn ekki útilokað. Þá er það, í huga undirritaðs, enginn vafi á því að Gagnaveita HEF hefði tekið við því hlutverki að vera gullegg HEF, það er okkar íbúanna. Ef Gagnaveita HEF yrði nýja gulleggið okkar þá væri vel möguleiki á því að bjóða til dæmis lægri línugjöld til heimila og fyrirtækja.

Að eiga og reka „fjarskiptamiðjuna“ fyrir dreif- og þéttbýlið væri virkilega góð staða fyrir sveitarfélagið. Megnið af tekjunum af henni yrðu eftir í sveitarfélaginu, sem og þekking og reynsla. Við yrðum „næstum“ óháð öðrum fjarskiptainnviða fyrirtækjum eins og til dæmis Mílu og Orkufjarskiptum.

Stöðugildi vegna Gagnaveitu HEF gætu orðið 1-3 og að minnsta kosti eitt af þeim hátæknistarf. Ekki þarf stórt húsnæði undir Gagnaveitu HEF sem var/er reyndar til staðar og vel staðsett til að reka slíka gagnaveitu.

Margvísleg tækifæri

Þá er möguleiki að bjóða upp á hýsingu fyrir opinberar stofnanir og fyrirtæki. Slíka þjónustu þurfa stofnanir og fyrirtæki á Austurlandi að kaupa mest af suðvesturhorni landsins fyrir verulegar upphæðir, sem annars rynnu til Gagnaveitu HEF. Hún gæti einnig boðið upp á til dæmis internetþjónustu.

Ljóst er að tekjurnar af Gagnaveitunni gætu orðið verulegar. Tekjupóstarnir eru nokkrir til dæmis línugjöld, hýsing, öryggisafritun, internetþjónusta, útleiga á ljósleiðaraþráðum, aðgangsgjöld, leiga á tækjum og búnaði og svo framvegis.

Gagnaveita HEF ætti til dæmis að vera sú veita sem byggir upp „grunnfjarskiptainnviði“ svo önnur fyrirtæki geti byggt á þeim grunni, til dæmis rekstur í sölu á vöru og þjónustu. Það er dýrt að byggja upp grunninnviði en með þessum hætti gætu fyrirtæki til dæmis nýtt sér þennan grunn sem einskonar stökkpall. Gagnaveita HEF gæti einnig stuðlað að því að aðilar, til að mynda í gagnavers hugleiðingum, kæmu inn á svæðið.

Hver græðir?

Íbúar sveitarfélagsins hafa þurft að bíða lengi eftir ljósleiðara. Engin samkeppni hefur verið til staðar um að leggja ljósleiðara í þéttbýlið. Fyrst og fremst eru það fjarskiptainnviðir Gagnaveitu HEF sem eru til staðar en ekki nýttir á „eðlilegan“, réttan eða sanngjarnan hátt.

Í dag á til dæmis innviðafyrirtæki ljósleiðara í dreifbýlinu (Brúarás-Lagarfossvirkjun) sem við styrktum til eignar. Ef fram fer sem horfir er líklegt að stórt innviðafyrirtæki á suðvesturhorni landsins eignist mest allt ljósleiðarakerfi sveitarfélagsins. Umrætt innviðafyrirtæki hefur verið að kaupa upp ljósleiðarakerfi sveitarfélaga og er eina fyrirtækið sem hefur burði til þess.

Ef það gerist fara allar tekjur af ljósleiðaraverkefninu Ísland ljóstengt á suðvesturhorn landsins. Einnig allir fjármunir sem við íbúarnir verðum búnir að leggja í verkefnið, allt fjármagn sem sveitarfélagið leggur til ásamt styrknum frá Fjarskiptasjóði og Byggðasjóði úr sveitarfélaginu. Þá verður einnig sú fjárfesting sem HEF hefur lagt í fjarskiptainnviði í sveitarfélaginu verðlaus og gagnlaus með öllu.

Það er undirrituðum hulin ráðgáta hvers vegna stjórn HEF hefur kastað Gagnaveitu HEF fyrir róða og ætti það að vera íbúum og nýjum kjörnum fulltrúum í nýju sameinaðu og sterku sveitarfélagi umhugsunarefni í kosningunum þann 19. september næstkomandi.

Höfundur er fyrrverandi framkvæmdastjóri HEF.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.