Gefur kost á sér í 3.-4. sæti hjá Samfylkingu í NA-kjördæmi
Helena Þ. Karlsdóttir, lögfræðingur og bæjarfulltrúi á Akureyri gefur kost á sér í 3. - 4. sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar.
Helena er bæjarfulltrúi á Akureyri, ritari Samfylkingarinnar og situr í stjórn og framkvæmdastjórn flokksins. Hún er m.a. varaformaður Samfylkingarfélagsins á Akureyri, formaður framkvæmdaráðs Akureyrar, formaður stjórnar Fasteigna Akureyrar, formaður stjórnar Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, varaformaður stjórnar Akureyrarstofu, og á sæti í stjórnsýslunefnd bæjarins. Hún situr sem fulltrúi félagsmálaráðherra í svæðisráði um málefni fatlaðra og situr í Héraðsnefnd Eyjafjarðar.
Helena segir brýnt að koma heimilunum og fyrirtækjunum til bjargar og að endurreisa þurfi fjármálakerfi landsins. Framundan eru erfiðir tíma og því er það forgangsverkefni að standa vörð um velferðarkerfið, halda hjólum atvinnulífsins gangandi og vinna bug á sívaxandi atvinnuleysi. Í kjölfar efnahagshrunsins er þörf á bættu siðferði, meira gegnsæi, bættum vinnubrögðum og betri stjórnsýslu.
Helena er mikil landsbyggðarsinni og gætir hagsmuna landsbyggðarinnar í hvívetna.
Helena er 41. árs gömul og gift Guðjóni J. Björnssyni. Þau eru búsett á Akureyri.
Helena starfar hjá Ferðamálastofu og sér um lögfræðileg málefni stofnunarinnar. Áður vann hún hjá Vinnumálastofnun á Akureyri. Menntun hennar og reynsla mun nýtast vel á vettvangi landsmálanna.