Geitárdalsárvirkjun – atlaga peningaafla að náttúru Austurlands

Fjársterkir aðilar með eigin hagnað að leiðarljósi eru nú orðnir afgerandi gerendur í áformum um vatnsaflsvirkjanir og vindorkuver á Íslandi. Það er grundvallarbreyting frá því sem áður var þegar fyrirtæki í eigu almennings áttu hlut að máli og þess var vænst að ávinningurinn félli í skaut samfélagsins.


Þessi öfluga ásókn fjármagnseigenda í orkuauðlindirnar kalla á skýrt regluverk og vandaðri ákvarðanatöku. Aðeins þannig verður tryggt að skammtíma hagnaðarsjónarmið sérhagsmunaaðila ráði ekki för.

Á Austurlandi eru það einmitt eignamenn með fulla vasa fjár sem nú ásælast leyfi til að virkja.

Víðerni Íslands eru fjársjóður

Óbyggð víðerni eru stór landsvæði þar sem ummerkja mannsins gætir lítið sem ekkert og náttúran fær að þróast án álags af mannlegum umsvifum. Í náttúruverndarlögum segir að standa beri vörð um óbyggð víðerni landsins, enda eru þau talin eitt það allra verðmætasta sem Ísland hefur yfir að ráða. Síðustu óbyggðu víðerni á hálendi Austurlands eru sá hluti Hraunasvæðisins sem slapp undan áhrifum miðlunarlóna fyrir Kárahnjúkavirkjun (Fljótsdalsvirkjun).

Gleymdust loforðin um að ekki þyrfti að virkja meira?

Sá mikli ófriður sem skapaðist um hina afar stórkallalegu Kárahnjúkavirkjun vakti vonir um að umgengni við náttúru og víðerni Austurlands yrði nærgætnari í framhaldinu. Raunar héldu virkjanasinnar því ítrekað fram að ekki þyrfti að virkja framar á Austurlandi. Aðrir fullyrtu að ekki yrði rasað um ráð fram og afl fjármagnsins fengi ekki að ráða för um hvenær og hvað yrði virkjað.

Því miður virðist sem áhrif peningaaflanna séu að verða öðrum öflum sterkari á Austurlandi og reyndar víðar um landið. Segja má að nýtt virkjanaáhlaup sé í kortunum ef ekkert verður að gert. Mikil og óafturkræf náttúruspjöll eru fyrirsjáanleg ef áform ganga eftir og stjórnmálamenn virðast ekki hafa burði til að standast áhlaupið.

Geitdalsvirkjun – sannarlega úlfur í sauðargæru

Áform um Geitdalsárvirkjun eru komin á rekspöl. Til að létta virkjanasinnum róðurinn er þeim haldið utan rammaáætlunar með formerkjum „smávirkjunar“. Þetta er þekkt leið til að dylja raunveruleg áform um sannarlega stórar og skaðlegar virkjanir. Með áformum um Geitdalsárvirkjun er enn einu sinni stofnað til ófriðar um virkjanir í þessum landshluta. Landvernd hefur skrifað ítarlega umsögn um áætlun um mat á umhverfisáhrifum hennar.

Engir brýnir almannahagsmunir réttlæta fyrirhugaða Geitdalsárvirkjun. Sú framkvæmd myndi eyðileggja stór víðerni og raska votlendi, stöðuvötnum, fossum, tjörnum, vistgerðum með hátt verndargildi og búsvæðum fugla og hreindýra.

Er rétt að fjármálaráðherra ráðstafi eignum þjóðarinnar til fárra?

Það fylgir sögunni að landið sem er undir er að mestu í eigu ríkisins. Ríkisvaldið í höndum fjármálaráðherra hefur gert samning við fyrirtæki sem stýrt er af fjáraflamönnum. Af áformum þeirra að dæma bera þeir lítið skynbragð á verndun náttúru og víðerna, en vita mun meira um það hvernig ávaxta má sitt pund með náttúruspillandi virkjunum.

Svæðið sem er í húfi nær inn fyrir Hálendislínu og verður væntanlega hluti af þjóðlendu okkar Íslendinga þegar fram líða stundir. Það er óskiljanlegt að hið sama ríkisvald sem áformar þjóðgarð á hálendi Ísland skuli afsala vatnsréttindum til einkaaðila án þess að nokkuð komi fram um ávinning samfélagsins.

Að helga sér land á kostnað náttúrunnar

Fjársterkir aðilar eru nú að merkja sér svæði í von um mikinn hagnað þegar fram líða stundir. Geitdalsárvirkjun er bara ein af mörgum áformuðum vatnsafls- og vindorkuvirkjunum á Austurlandi. Áformin eru af slíkri stærðargráðu að þó aðeins hluti þeirra gengi eftir hefðu þau umbreytandi áhrif á landslag, víðerni og náttúru landshlutans. Í umfjöllun Kjarnans um virkjanir á Austurlandi segir að átta virkjanir hið minnsta séu fyrirhugaðar á vatnasviði Hraunasvæðisins. Mynd sem þessari grein fylgir sýnir umfang þess sem er í uppsiglingu.

Smávirkjanir geta valdið miklu tjóni

Rammaáætlun hefur það hlutverk að veita yfirsýn og stuðla að því að í nýtingaflokk fari þær virkjanahugmyndir sem valda hvað minnstum skaða og hámarka samfélagslegan ávinning. Í dag miðast reglurnar við að vatnsaflsvirkjanir sem eru undir 10 megawöttum, svokallaðar smávirkjanir, þurfi ekki að lúta reglum rammaáætlunar.

Að telja megawött segir hinsvegar mjög lítið um neikvæð umhverfisáhrif eins og Geitdalsárvirkjun er gott dæmi um. Í áliti Skipulagsstofnunar hefur að auki komið fram að megawött séu ekki gildur mælikvarði þegar kemur að því að meta áhrif á umhverfi og náttúru. Það fer með öðrum orðum algjörlega eftir staðháttum og viðkvæmni lands hversu mikil umhverfisáhrif tiltekin virkjun hefur á umhverfi og náttúru.

Látum ekki fjárfesta leiða orkuskiptin

Á náttúrukorti Landverndar má finna yfirgengileg virkjanaáform á Íslandi. Þar er einnig að finna umfjöllun um þá náttúru sem fórnað yrði í hverju tilfelli. Það er löngu tímabært að snúa af þeirri braut sem mörkuð hefur verið af fjárfestum. Tökum höndum saman svo náttúrvernd og loftslagsvernd haldast í hendur á Austurlandi, og landinu öllu. Landvernd lýsir eftir orkuskiptum sem við getum orðið stolt af sem arfleifð til komandi kynslóða.

Höfundur er formaður Landverndar.

virkjanir austurlandi landvernd april22

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.