Gerum betur í Fjarðabyggð
Framtíð Fjarðabyggðar er björt í flestu tilliti. Samfélagið nýtur öflugs atvinnulífs og tækifæri eru til atvinnuuppbyggingar. Sterkur sjávarútvegur, stærsta álver landsins, kraftmikið laxeldi og vaxandi ferðaþjónusta skilar einna hæstu meðalatvinnutekjum í landinu. Fjórðungur vöruútflutningsverðmæta þjóðarinnar verður til í bæjarfélaginu og tekjur sveitarfélagsins aukast ár frá ári. Þó ætti öllum að vera ljóst að hemja þarf útgjöld sveitarfélagsins og treysta rekstur þess.Nýr sterkur meirihluti hefur tekið við bæjarstjórn Fjarðabyggðar. Hann telur sjö bæjarfulltrúa af níu, skipar Framsóknarflokkur þrjá en Sjálfstæðisflokkur fjóra. Meirihlutinn hefur kynnt metnaðarfullan málefnasamning og mikilvægur undirtónn er traustari fjárhagslegur rekstur. Taka þarf á fjárhag sveitarfélagsins með aga og yfirvegun. Lögð áhersla á hagræðingu í rekstri til að tryggja svigrúm til fjármögnunar grunnþjónustu.
Í málefnasamningnum kveður meðal annars á um eftirfarandi:
• Horft verður til forgangsröðunar verkefna og nýrra útfærslna í tengslum við starfsmannaveltu sveitarfélagsins. Varðandi starfsmannaveltu þarf að huga að sameiningarmöguleikum og samnýtingu verkefna.
• Fyrsta hagræðingaraðgerð meirihlutans felst í einföldun stjórnsýslu og styrkja ferla til aukinnar þjónustu við íbúa. Þegar hefur nefndum verið fækkað og nefndarmönnum fækkað um 12 sem skapar aukna skilvirkni og rekstrarhagræði.
• Unnið verður að því að gera Fjarðabyggðarhafnir að sjálfstæðu félagi í eigu sveitarfélagsins. Þannig eykst styrkur hafnarinnar og vöxtur hennar enn frekar.
• Ráðist verður í að greina nýtingu fasteigna sveitarfélagsins með það fyrir augum að fækka þeim strax á núverandi ári. Þegar hefur verið skipaður starfshópur til greina rekstur mannvirkja í því augnmiði að nýta þau betur og fækka þeim.
• Aukin áhersla á forgangsröðun verkefna sveitarfélagsins, skilvirkara eftirlit með verkum yrði innleitt. Treysta þarf reksturinn með því að rýna betur í reikningshald, innkaup og eftirlit verkefna. Að sama skapi yrðu yfirfarin innkaup sveitarfélagsins á vörum og þjónustu með hagkvæmnissjónarmið að leiðarljósi.
• Innleidd verða fyrstu skref að opinu bókhaldi sveitarfélagsins sem veitir betri yfirsýn og eykur aðhald.
Framtíð Fjarðabyggðar er björt í flestu tilliti. Þó ætti öllum að vera ljóst að hemja þarf útgjöld sveitarfélagsins og treysta rekstur þess.
Nýr meirihluti Fjarðabyggðar býr yfir miklum metnaði enda tækifæri til vaxtar mörg. Málefnasamningur meirihlutans lýsir raunhæfum markmiðum á því tveggja ára tímabili sem er til næstu sveitarstjórnarkosninga. Þann skamma tími þarf að nýta vel og styrkja rekstur og auka aðhald. Einungis þannig gerum við betur.
Höfundur er formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar