Gjaldeyrisskapandi hagkerfi í Fjarðabyggð en tekjurnar skila sér illa til baka

Ríkisstjórn Íslands kom til Egilsstaða í lok ágúst og átti þar góðan fund með fulltrúum sveitarfélaga á Austurlandi. Þar var farið yfir helstu áherslumál sveitarfélaga og þær aðgerðir sem brýnt er að ráðast í sem fyrst til að samfélögin geti haldið áfram að vaxa og dafna. Þar er Fjarðabyggð ekki undanskilin, síðustu misseri hefur farið fram mikil uppbygging og búum við í ört stækkandi samfélagi.


Öflugt atvinnulíf og ört stækkandi samfélag

Atvinnulífið blómstrar sem aldrei fyrr og atvinnuleysi með því minnsta sem hægt er að finna eða 0,9%. Fjarðabyggð er það sveitarfélag sem hefur hvað hæðstu meðaltekjur á íbúa og jafnframt eitt fárra sveitarfélaga sem hefur meirihluta tekna sinna af framleiðslu.

Það er kannski ekki skrítið þar sem hér fer fram mikil framleiðsla á ýmsum varning og þá einna helst í sjávarútvegi, laxeldi og álframleiðslu. Það er gaman að segja frá því að Fjarðabyggð framleiðir 35,5 % af öllu því áli sem framleitt er á Íslandi, verðmæti á útfluttu áli frá Fjarðaáli eru 143 milljarðar og útfluttar sjávarafurðir ásamt fiskeldi frá Austurlandi eru að verðmæti 86,4 milljarðar sem eru 21,7 % af heildar útflutningi á Íslandi og er stór hlutur þess framleiddur í Fjarðabyggð.

Lítið sem kemur til baka og Suðurfjarðarvegur á þrotum

Því miður er staðan þó sú að aðeins lítill hluti þeirra tekna sem við skilum í þjóðarbúið skilar sér aftur til Fjarðabyggðar. Við höfum til að mynda kallað eftir því að framkvæmdum við Suðurfjarðarveg verði flýtt. Meðal annars vegna þungaflutninga sem fara hér um svæðið og þjónustu sem þarf að sinna með þungum tækjum, auk þess er vegkaflinn milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar hættulegasti kaflinn á Þjóðvegi 1. Þetta er vegur sem tengir samfélagið okkar saman, Fjarðabyggð. Þar keyra íbúar Suðurfjarða á milli til að sækja vinnu, þjónustu og menntun svo eitthvað sé nefnt.

Ég skrifaði grein fyrr á árinu um mikilvægi þess að framkvæmdum við Suðurfjarðarveg yrði flýtt í nýrri samgönguáætlun. Það varð raunin en betur má ef duga skal því fyrstu framkvæmdir við hann eru ekki á áætlun fyrr en árið 2027, við getum ekki unað við þá bið. Fyrsti kafli Suðurfjarðarvegar sem á að hefja framkvæmdir við samkvæmt samgönguáætlun er Reyðarfjarðarbotn sem er vel þar sem brúin yfir Sléttuá er ein umferðaþyngsta einbreiða brú á Íslandi og strangar þungatakmarkanir á henni mjög hamlandi.

Ástand Suðurfjarðarvegar er farið að standa ákveðnum kjörnum Fjarðabyggðar fyrir þrifum, þar má tildæmis nefna Fáskrúðsfjörð sem er orðin einskonar eyland við hertar þyngdartakmarkanir á brú yfir Sléttuá og brú í botni Fáskrúðsfjarðar. Þetta stöðvaði þá uppbyggingu sem framundan var í Fáskrúðsfirði því ekki er hægt að koma krana á svæðið.

Að þetta sé staðan árið 2023 er ekki boðlegt. Á Fáskrúðsfirði er næg atvinna og góðir innviðir, nóg pláss í grunn- og leikskóla og fullt af lausum skipulögðum byggingarlóðum. Þetta hefur líka áhrif á atvinnulífið en þarna er blómlegur sjávarútvegur og fiskeldi sem oft þarf að þjónusta með þungum tækjum og krönum sem ekki er hægt að koma á svæðið. Það er mín trú að þingið taki þetta til umfjöllunar í haust og sjái og skilji þá erfiðu stöðu sem við erum komin í. Framkvæmdir við Suðurfjarðarveg voru settar á frest fyrir tæpum tuttugu árum, þá var þörf en nú er nauðsyn.

Höfundur er bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins og formaður umhverfis- og skipulagsnefndar.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.