Grænn ávinningur fyrir land og þjóð

Eitt brýnasta umhverfisverndarmál næstu ára er að nýta græna orku og hraða orkuskiptum í samgöngum á landi, í lofti og á sjó. Rafknúnar bifreiðar seljast vel, orkuskipti eru hafin í sjávarútveginum og það hillir undir að slíkt muni einnig eiga sér stað í flugsamgöngum áður en langt um líður. Þetta er jákvæð þróun og við hljótum öll að fagna því að hreinir orkugjafar séu að taka yfir.

Breytingunum fylgir margvíslegur ávinningur fyrir land og þjóð. Mikill gjaldeyrissparnaður verður við að keyra allar innlendar samgöngur á grænni innlendri orku í stað innfluttra og mengandi orkugjafa. Einnig hjálpa breytingarnar okkur að standa við alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum og tryggja að við verðum í fararbroddi í þessum málaflokki á meðal þjóða heims.

Hálendisþjóðgarður - ekki gætt að heildarmyndinni


Í frumvarpi um stofnun Hálendisþjóðgarðs, sem var til umræðu á Alþingi á kjörtímabilinu, var alveg horft fram hjá því hvernig tryggja ætti endurnýjun flutningslína á rafmagni og lokað var á möguleika til nýtingar á endurnýjanlegum orkugjöfum á svæðinu til framtíðar. Þannig var ekki gætt að heildarmyndinni og í raun girt fyrir að Íslendingar uppfylltu markmið sín um orkuskipti og gætu staðið við skuldbindingar í loftslagsmálum.

Þannig virðist mikilvægasta atriðið oft gleymast í umræðunni. Ef allt þetta á að verða að veruleika - og ef það er markmið okkar að vera forystuþjóð á sviði grænnar orku - þarf að framleiða græna orku. Því er forgangsmál að skoða hvaða möguleikar eru fýsilegir til að veita okkur aukna orku og mikilvægt að greina og velja hagkvæmustu orkukostina.

Það þarf að framleiða græna orku

Eigi Ísland að verða forystuþjóð í nýtingu grænnar orku er nauðsynlegt að ræða af fullri alvöru hvaðan við eigum að fá innlendu grænu orkuna sem á að koma í stað innflutts jarðefnaeldsneytis. Hér á Íslandi eru vatns-, jarðvarma- og vindorka þeir möguleikar sem vænlegastir eru. Þessir valkostir eru ein stærsta auðlind Íslendinga og hana þarf að nýta. Við Íslendingar höfum sýnt það í gegnum árin að við búum yfir mikilli þekkingu og reynslu við að virkja náttúruna en það þarf að umgangast hana og landið okkar af virðingu og varfærni.

Traustir orkuinnviðir um allt land allt eru lykillinn að grænni umbreytingu í atvinnu og samgöngumálum. Á næstu árum þarf að taka enn stærri skref en áður í átt til grænnar atvinnustarfsemi og grænna samfélags. Við getum og eigum að vera í forystu á heimsvísu í þessum málaflokki en til þess að það geti orðið þarf að horfast í augu við þá staðreynd að græn orka, og orkuskipti í landinu, verða ekki að veruleika nema að við framleiðum græna orku.

Höfundur skipar 1. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi við næstu Alþingiskosningar.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.