Hag- ræða

Andrés Skúlason skrifar:    Öllu má nafn gefa, en svonefnd hagræðing hefur verið lausnarorð um langt skeið og fyrirmönnum ýmsum þótt gott að grípa til þessa hugtaks þegar á hefur þurft að halda, til að sannfæra fólkið í landinu um nauðsyn þess að hrúga þjónustu, framleiðslu, svo ekki sé talað um fólkinu sjálfu, saman á fáa útvalda staði.

Aðferðarfræðin er þekkt og hefur verið beitt af umtalsverðu offorsi hér í byggðarlögunum á Austurlandi þvert og endilangt á síðustu árum. Lengst var farið fram með „hagræðingu“ þessari á ógnarskeiði Sjálfstæðis- og Framsóknarflokka, þar sem gengið var milli bols og höfuðs á hverju byggðalaginu á fætur öðru og allt var þetta látið líta út eins og um hreint náttúrulögmál væri að ræða. Einkavina- og græðgisvæðingaflokkarnir áttu þarna sannarlega  stærstan hlut að máli svo og nokkur stórfyrirtæki umvafin blágrænum flokksböndum. Þau nýttu sér hugmyndafræðina af fullkomnu siðleysi í blindri trú á markaðslögmálin. 
Þeir hinir sömu og trúa því að samþjöppun eigi að vera órjúfanlegur  þáttur í  því að ná árangri, ættu að spyrja sig í dag hvað varð um öll verðmætin sem urðu til í allri þeirri gríðarlegu hagræðingu sem framkvæmd hefur verið  á liðnum árum.


 

Það hafa meira og minna allar stofnanir á vegum ríkisins verið að hagræða stórkostlega á undanförnum árum og hagræðingin hefur í öllu falli farið í að fækka einingunum og stækka þær, fækka störfum og flytja þau frá minni sveitarfélögum og byggðalögum  til þeirra stærri. Hið sama hefur gerst meðal stórfyrirtækja  hér á landi, þau voru sömuleiðis sameinuð og stækkuð í nafni hagræðingar og starfsemi lögð niður í minni sveitarfélögum og flutt til hinna stærri. Jafnan fengu forstjórar þá ríflegan kaupauka fyrir góðan árangur í hagræðingu og áfram héldu menn að hagræða og hagræða alveg þangað til þjóðarbúið fór á hausinn. Þökk sé hagræðingunni. Þeir sem hafa gengið lengst í vissu sinni fyrir því að þessi stefna hafi verið rétt, hafa að áliti undirritaðs í besta falli náð að hagræða sannleikanum með einhverjum árangri.

 

Ákveða grunnþjónustu

Ef ráðamenn eru í leit að sökudólgum nú um stundir vegna fjármálakreppunnar ættu þeir síðast af öllu að snúa sér að þeim sem hafa þegar borið sínar byrðar til að aðrir gætu notið á undanförnum árum. Á tímum stórframkvæmda á Miðausturlandi safnaði m.a. Heilbrigðisstofnun Austurlands miklum skuldum og þar hafa ráðamenn sagt að ekki hafi fylgt fjármagn með frá ríkisvaldinu sem lofað hafi verið til að mæta þeirri tímabundnu fólksfjölgun sem þá varð. 
Hver getur í þessu ljósi sagt í dag með sanngirni að jaðarbyggðirnar sem hvergi komu nærri þeim ofurvexti sem hljóp í hið austfirska hagkerfi þá,  eigi nú að bera byrðarnar einu sinni enn af óráðsíunni.


 

Það er ekki verjandi að byggja byggðastefnu á markaðslögmálum þar sem íbúar eru beinlínis verðmerktir og hengt fyrir það eitt að búa utan borgarmarkanna þegar kemur að því að standa vörð um sjálfsagða grunnþjónustu.
Við erum ekki að biðja um hátæknisjúkrahús í hvert byggðalag. Það er aðeins verið að tala um tryggja íbúum á öllum aldri lágmarksöryggi, að tryggja m.a. mannsæmandi heilbrigðisþjónustu og sömuleiðis að fólkið sem hefur alið allan sinn aldur tryggt sinni byggð fái að eyða síðustu árum ævi sinnar í túninu heima. Sú fjandsamlega stefna sem byggð var upp í algleymi markaðarins þar sem allt átti að  einkavæða og selja, hefur stórlega veikt grunnstoðir margra smærri byggðalaga um landið og jafnhliða gert mörgum sveitarfélögum erfiðara um vik að rækja skyldur sínar gagnvart íbúum.
Nú þurfa stjórnmálaflokkar í aðdraganda kosninga að hafa dug í sér að ákveða í eitt skipti fyrir öll skilgreinda lágmarksþjónustu fyrir íbúa þessa lands svo fólkið viti hvar í sveit sem það er sett, að hverju það gengur í þessum efnum til framtíðar fyrir sjálft sig og afkomendur sína. Þannig munum við m.a. treysta stoðir byggðanna til framtíðar.  
 

Um tækifæri og trú

Með þeirri einsleitu atvinnustefnu sem á var umfram allt lögð áhersla á ógnarskeiðinu fyrrnefnda, vildi pólitíkin horfa fram hjá því að við búum í landi þar sem auðlindir er víða að finna. Orkan í iðrum jarðar, fallvötnin  og auðlindir hafsins eru bara brot af auðlindum okkar. Byggðastefna sem gengur út á að smala fólkinu markvisst saman á afmörkuð svæði á fáum stöðum á landinu til að vinna í þungaiðnaðarverksmiðjum, er algjörlega fráleit stefna og fullkomlega úrelt og til þess eins fallin að drepa niður byggðirnar og  frumkvæðið í fólkinu til langrar framtíðar. Það er einnig algjörlega fjarstæðukennt að halda því fram að það sé  þjóðhagslega hagkvæmt að geyma öll eggin í sömu körfunni, eða sömu verksmiðjunni.   

Auðlindir þjóðarinnar liggja nefnilega ekki bara í fallvötnunum og fiskimiðunum eins  næst væri að halda í ljósi umræðunnar. Auðlindirnar eru hins vegar ekki alltaf sýnilegar því sagan sem allar byggðirnar okkar hafa að geyma er mikill fjársjóður. Þessi saga verður hins vegar ekki mikill fjársjóður eða verðmæti fyrir landið eða framtíð þess ef engin verður eftir til að segja þær í byggðunum hringinn í kringum landið.
Umhverfi okkar á Austurlandi og náttúra eru sannarlega vanmetin og því miður virðist ennþá sem svo að hjá stórum hluta Austfirðinga sé frekar lítill áhugi á að nýta þessa auðlind með skynsamlegum hætti, heldur hefur miklu frekar verið gengið gegn þessari auðlind í blindri trú á að erlend stórfyrirtæki séu miklu betur til þess fallin að bjarga okkur heldur en við sjálf. 

Ferðaþjónustan er nú þegar orðin stór atvinnugrein á austfirskan mælikvarða og þrátt fyrir að ennþá séu til fyrirmenni sem tala niður til þessarar greinar, er allt í lagi að halda því til haga að ferðamenn munu skilja eftir sig á milli 5 – 6 milljarða inn í austfirskt hagkerfi á þessu ári ef spár ganga eftir. Það er örlítið minna fé en samanlagður virðisauki sem varð samanlagt til eftir í landinu af verksmiðjunum í Straumsvík og Grundartanga árið 2007,  bara svona til að hafa eitthvað til viðmiðunar. Í ferðaþjónustunni eru fjölbreytninni engin takmörk sett en þar hafa menn verið að byggja upp af vanefnum á liðnum árum. Engu að síður hefur náðst frábær árangur í greininni,  því skynja má að ferðamenn eru sífellt ánægðari eftir því sem uppbyggingunni miðar áfram.   
Í kringum ferðaþjónustuna er einnig verið að vinna markvisst að ýmiss konar vöruþróun og framleiðslu sem hefur þegar skilað góðum árangri.

Þá skulum við ekki gleyma að það liggja ennþá mikil tækifæri í grunnatvinnuvegunum okkar, þar þarf að koma til vöruþróun og frekari fullvinnsla til verðmætasköpunar, jafnhliða þarf að byggja menntakerfið okkar upp í nánum tengslum við atvinnuvegina. Þannig vinnum við nýja markaði og sköpum meiri verðmæti. Í hafinu við strendur landsins liggur ennþá mikill fjöldi af ónýttum tegundum sem gera má mikil verðmæti úr ef rétt er á spilum haldið og stuðningi veitt til verkefna. Fiskeldið er fjarri því dauðadæmt, en með faglegri vinnubrögðum og meiri þekkingu er ekkert sem kemur í veg fyrir að við verðum jafnokar nágrannaþjóða í þeim efnum til framtíðar. 
Meiri fullvinnsla landbúnaðarafurða er sömuleiðis mikilvæg, en þar hefur vöruþróun eins og í kringum sjávarauðlindirnar nánast staðið í stað í áratugi.

Hér er aðeins fátt eitt nefnt, en undir þessum kringumstæðum vill undirritaður vekja Austfirðinga sem og aðra til vitundar um að auðlindir okkar liggja víðar en í veðri hefur verið látið vaka. Það sem Austurlandi vantar nú um er samstaða um nýjar og metnaðarfullar leiðir til endurreisnar með nýjum gildum, með frumkvæðið og sköpunargáfuna að vopni. Þannig göngum við til verks og þannig sköpum við verðmæti til að byggja þjóðfélagið allt upp á ný.

 (Samfélagsspegill Austurgluggans 26. mars sl.)

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.