Háskólar á Austurlandi til framtíðar

Ekki alls fyrir löngu var undirrituð viljayfirlýsing um samstarf sveitarfélagsins Múlaþings og University of Highlands and Islands (U.I.H) í Skotlandi. Með tilkomu þessa samstarfs opnast miklir möguleikar fyrir námsmenn á Austur- og Norðurlandi hvað háskólamenntun varðar.

Námsframboð er mikið og skólinn hefur lagt mikla áherslu á fjarkennslu. Skóli þessi býður upp á nám sem í fljótu bragði virðist sniðið að okkar landshluta, þ.e hægt er að mennta sig í haf- og strandsvæðaferðaþjónustu, landbúnaði og víkingafræðum svo fátt sé nefnt.


Ljóst er að þetta opnar fyrir annars konar nám en hefðbundið er á Íslandi og spennandi verður að sjá hvað verður. En ég leyfi mér að dreyma aðeins og langar að velta upp þeim möguleikum sem gætu opnast með þessu samstarfi. Nemendur U.I.H telja einhverjar þúsundir, 13 starfstöðvar eru í boði og yfir 70 rannsóknarsetur. Þegar íslenskir nemendur bætast í þarf að koma þeim á milli starfsstöðva hér og erlendis. Hvað með að nota tækifærið og byggja upp samgöngur milli Skotlands og Norðausturlands?


Flugtími frá Aberdeen til Egilsstaða er um 1 klst og siglingartími frá Scrabster til Seyðisfjarðar um 24 klst. Það eru alþjóðaflugvellir bæði á Egilsstöðum og Akureyri og á Seyðisfirði er eina ferjuhöfn landsins sem einnig er landamærastöð. Það liggur því beint við að koma á beinum reglulegum samgöngum þar á milli ekki bara fyrir farþega heldur einnig til að auka aðgengi fyrirtækja að nýjum flutningsleiðum.


Þessi skref væru stórkostleg framför fyrir Norðausturland í heild sinni og yrðu hluti að uppbyggingu háskólasamfélags á Austurlandi. Þessar aðgerðir eru í takt við kosningastefnu Pírata sem fjallar meðal annars um ungt fólk og framtíðina, aukið aðgengi að námi og þjónustu í heimabyggð og nýsköpun.


Rúnar Gunnarsson, þriðji maður á lista Pírata í Norðausturkjördæmi og áhugamaður um bættar samgöngur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.