Háskólaútibú á Austurlandi í samvinnu við HA og HR
Þá er það ákveðið. Háskólinn í Reykjavík mun bjóða upp á nám í Háskólagrunni haustið 2021 á Austurlandi í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Námið er sveigjanlegt undirbúningsnám fyrir háskólanám. Það er blanda af hefðbundnu og stafrænu námi. Kennsla og aðstaða verður í Fróðleiksmolanum á Reyðarfirði.Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, undirritaði samstarfssamning í september 2020 um undirbúning stofnunar háskólaútibús og kennslu á háskólastigi á Austurlandi. Í framhaldinu var stofnaður stýrihópur með þátttöku Háskólans í Reykjavík, Háskólans á Akureyri, Fjarðabyggðar, Múlaþings, Austurbrúar/SSA ásamt fulltrúum úr sjávarútvegi og iðnaði á Austurlandi. Með hópnum unnu einnig starfsmenn Austurbrúar og menntamálaráðuneytisins ásamt undirritaðri.
Búið er að opna fyrir umsóknir
Vinnan við undirbúninginn hefur nú skilað árangri. Boðið verður upp á nám í Háskólagrunni HR í háskólaútibúinu haustið 2021 og þegar hefur verið opnað fyrir umsóknir. Háskólagrunni HR lýkur með lokaprófi sem veitir rétt til háskólanáms.
Stýrihópurinn mun starfa áfram til að undirbúa næstu skref. Háskólagrunnur HR er aðeins fyrsti áfanginn í uppbyggingu háskólaútibús á Austurlandi. Í öðrum áfanga er stefnt að námsframboði á sviði iðn- og tæknifræða haustið 2022 og að námsleiðunum fjölgi í þriðja áfanga. Við skipulag háskólaútibúsins verður horft til þarfa og styrkleika atvinnulífs á Austurlandi og langtímamarkmiðið er að efla virkt þekkingarsamfélag á Austurlandi.
Annað háskólastarf á Austurlandi
Ef okkur íbúum Austurlands tekst að hlúa að þessu verkefni í samvinnu við þá sem nú hafa lagt grunninn vefur verkefnið vonandi utan á sig og styður aðra háskólastarfsemi í fjórðungnum og annað háskólanám sem stundað er á Austurlandi.
Rannsóknasetur Háskóla Íslands eru nýlega orðin tvö á Austurlandi; á Breiðdalsvík er áhersla á jarðvísindi og málvísindi en á Egilsstöðum er megináherslan á rannsóknir á tengslum manns og náttúru
Þá er það mikið fagnaðarefni að nýlega er komið á samstarfsverkefni milli Múlaþings og University of Highlands and Island í Skotlandi (UHI). Lengi hefur verið horft til starfsemi UHI sem fyrirmyndar við skipulag fræðslustarfsemi á vegum Austurbrúar og Háskólinn á Akureyri á samstarf við skólann.
Þessi verkefni geta öll stutt hvert við annað.
Íbúar á Austurlandi hafa raunverulega möguleika til náms
Þá stunda yfir 150 nemar fjarnám frá Austurlandi við háskóla innan lands og utan. Margir treysta á þjónustu Austurbrúar við próftöku og fleira. Nú er lag að efla allt fjarnám í landinu enn frekar, þegar hver einasti háskólakennari hefur prófað fjarkennslu.
Háskólasamfélagið þarf á þekkingunni sem býr í náttúru og atvinnulífi á Austurlandi að halda og samfélagið á Austurlandi þarf að eiga sömu tækifæri á að nýta sér þekkingarsamfélag háskólanna eins og aðrir landshlutar.
Mikilvægt er að stjórnvöld hverju sinni hafi skilning á því að þessir sprotar fái að vaxa og dafna. Það hafa þeir sannarlega fengið að gera síðustu misseri. Til hamingju með þessa háskólasprota sem nú vaxa. Þeir eru vonandi komnir til að vera.
Höfundur er þingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi