Heilbrigðismál og -þjónusta í Múlaþingi

Öll viljum við sterka heilbrigðisþjónustu í nærumhverfinu, þjónustu sem byggir mest á heilsugæslunni sem er á forræði og ábyrgð ríkisins. Hvar í flokki sem við erum viljum við stuðla að því að efla hana, en stærsta áskorun hennar eins og víðar er að fá og halda góðu starfsfólki.

Heilsugæsla Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) í Múlaþingi hefur hvað lengsta reynslu heilsugæslustöðva á landsbyggðinni í að kenna verðandi heilbrigðisfagfólki. Það hefur skilað henni mörgu fagfólki til starfa og reynst drýgsta uppspretta nýliðunar, ekki síst lækna.

Nám heilbrigðisfagfólks í dreifbýli

Að Háskólinn á Akureyri (HA) hóf að bjóða grunnnám í hjúkrunarfræði hefur árum saman skilað heilbrigðisþjónustu á Austurlandi fjölda frábærs fagfólks. Úr hópi greinarhöfunda hefur ítrekað verið bent á að breyta þurfi skipulagi læknanáms í Háskóla Íslands (HÍ) til að læknanemar skili sér í starfsnám í heilsugæslu strax á 1. eða 2. námsári í stað lokaárs eins og nú er. Covid-ástandið staðfesti að akademískt gæðanám læknadeildar má bjóða í fjarbúnaði, sem HA hafði áður sannað fyrir hjúkrunarfræðinám. Sí- og endurmenntun fagfólks er mikilvæg en skipulag Endurmenntunardeildar HÍ á sínu námi endurspeglar ekki þarfir heilsugæslu í dreifbýli.

Hvað gæti Múlaþing t.d. gert?

1. Aukið áherslu á fjölbreyttan aðgang að akademísku námi í/frá heimabyggð. Heilbrigðisstefna til 2030 ætlast til að menntastofnanir líti til þarfa heilbrigðisþjónustu. Brýnt er að m.a. sveitarstjórnir fylgju þessu eftir.

2. Fylgt eftir samningum sem Fljótsdalshérað og Seyðisfjörður gerðu með HSA um að innleiða hugmyndafræðina Jákvæð heilsa, sem lið í að styrkja heilsueflingu og forvarnir.

3. Nýtt lýðheilsuvísa landlæknis, sem m.a. er ætlað að auðvelda sveitarfélögum að vinna að bættri líðan og heilsu fólks, þ.e. lýðheilsu samfélagsins.

4. Dregið markvisst úr ójöfnuði, einni mestu heilsuógn samtímans. Á mörgu er taka s.s. leikskólagjöldum, kostnaði tengt grunnskólagöngu o.fl. Að minnka ójöfnuð sem fatlaðir, bæði fullorðnir og börn búa við, er þó hér hið risastóra verkefni.

5. Horft heildstætt á alla félags- og velferðarþjónustu. Eflt heimaþjónustu við aldraða með samþættingu þjónustuleiða og enn meiri samvinnu félagsþjónustu Múlaþings og heimahjúkrunar HSA.

6. Átt reglulegt samráð við yfirstjórn HSA um það hvernig sveitarfélagið geti stutt við stofnunina og auðveldað tækjakaup og stuðlað að fjölgun og fjölbreytni í framlínu fagfólks, ekki síst að fá augnlækna, fagfólk á geðheilbrigðissviði, næringarfræðing o.fl.

Höfundar eru heilbrigðisstarfsmenn og vinna öll í HSA

Pétur Heimisson læknir skipar 3. sæti á lista VG í Múlaþingi
Kristín Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur skipar 11. sæti á lista VG í Múlaþingi
Daniela Gscheidel húðsjúkdómalæknir skipar 21. sæti á lista VG í Múlaþingi

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.