Hellt úr skálum reiðinnar
Ferlegt er að hlusta á sérstakan ríkissaksóknara segja frá því hálfniðurlútan að embættið sé eiginlega ekki að gera nokkurn skapan hlut. Hvernig má það vera að þó þjóðin sé gjaldþrota vegna afglapa og blindu lýðræðislega kjörinna stjórnvalda og gleiðgosa sem finnst ekki tiltökumál að gambla með heila þjóð, er enginn tekinn í karphúsið? (Leiðari Austurgluggans 26. mars sl.)
Ég veit að þúsundir manna hafa spurt hins sama. Ég sé að allir sem hugsanlega ættu og mættu axla ábyrgð á ástandinu kjafta sig út úr því eða flýja land. Ég er fjarri því að vera ein um að vera algjörlega ofboðið. Ég upplifi hreina vanvirðu frá þeim stjórnmálaöflum sem leyfðu glórulaust að okkur væri siglt í efnahagslegt strand. Þarna standa menn í sínum fílabeinsturnum og sproka af kokhreysti um að núverandi stjórn sé ekki að gera neitt. Eins og þessir þingmenn hafi efni á slíku! Skammist ykkar bara. Það virðist einnig vera nákvæmlega sama úr hvaða pólitíska armi fólk er, það skiptir um kjaftaforrit í því hægri vinstri eftir því hvort það er í stjórn eða stjórnarandstöðu.
Þjóð sem er á barmi gjaldþrots og vart er sjálfstæð lengur virðist ætla að kjósa sama fólkið yfir sig aftur. Og aftur. Og aftur. Hvernig má þetta vera? Spyr sú er ekki veit.
Þjóðin óskar eftir trúverðugleika stjórnmálamanna. Virðingu við almenning. Heilindum. Raunverulegum breytingum. Ekki sama sanga grautnum í sömu brotnu skálinni. Hér er aðgerða þörf.
Að öðru leyti trúi ég enn staðfastlega á vorkomu.
Steinunn Ásmundsdóttir