Herða þarf ýmsar skrúfur hjá HSA

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um Heilbrigðisstofnun Austurlands, HSA, segir að taka þurfi á rekstrarvanda stofnunarinnar og skilgreina hvaða þjónustu hún skuli veita. Stjórnendur stofnunarinnar verði að sýna meira aðhald í rekstri en hingað til og heilbrigðisráðuneytið að sinna betur eftirfylgni með framkvæmd fjárlaga. Þá þurfi ráðuneytið að gera árangursstjórnunarsamning við stofnunina og hún að bæta stefnumótandi áætlanagerð sína.

image0011.jpg

HSA varð til fyrir rúmum áratug með sameiningu stofnana á svæðinu frá Bakkafirði  til Djúpavogs. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram, að heilbrigðisþjónusta á Austurlandi sé nú traustari og fjölbreyttari en áður. Hins vegar hafi skipulagningu og áætlanagerð vegna sameiningarinnar verið ábótavant.

Kostnaður stofnunarinnar hefur ítrekað farið fram úr heimildum fjárlaga undanfarin ár. Að mati Ríkisendurskoðunar stafar þetta m.a. af því að fjárheimildir hafa ekki verið í samræmi við umfang starfseminnar.  Í skýrslunni kemur fram að raunkostnaður HSA á hvern íbúa á svæðinu stóð nokkurn veginn í stað á tímabilinu 2005–2007. Einnig leiðir athugun Ríkisendurskoðunar í ljós að skilvirkni jókst á tímabilinu, bæði á legudeildum og í heilsugæslu. Ríkisendurskoðun gagnrýnir þó að upplýsingar um starfsemi heilbrigðisstofnana landsins eru af skornum skammti og telur brýnt að úr því verði bætt. Í skýrslunni eru enn fremur settar fram ýmsar fleiri ábendingar er varða rekstur og stjórnun HSA og hlutverk heilbrigðisráðuneytisins.

 Að mati Ríkisendurskoðunar mun nýtt skipurit HSA hafa jákvæð áhrif á þróun starfseminnar og draga úr þeirri svæðaskiptingu sem einkennt hefur hana. Einnig telur Ríkisendurskoðun að stjórnun tæknimála sé til fyrirmyndar hjá stofnuninni. Hins vegar þarf að gera árangursstjórnunarsamning milli heilbrigðisráðuneytisins og HSA en slíkur samningur hefur ekki verið í gildi síðan 2003. Þá þarf stofnunin að bæta stefnumótandi áætlanagerð sína, bæði langtímaáætlanir og ársáætlanir.

http://www.rikisend.is/files/skyrslur_2009/Heilbrigdisstofnun_Austurlands.pdf

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.