Hrakfarir blakmeistara
Bikarmeisturum Þróttar mistókst um helgina að tryggja sér sæti í undanúrslitum kvenna í blaki. Liðið á enn von en byrjaði vörnina illa í forkeppninni um helgina. Körfuknattleikslið Hattar tapaði fyrsta leik vetrarins.
Forkeppni átta liða í kvennaflokkinum var leikin í tveimur riðlum í Grundarfirði. Fyrirfram var búist við að Þróttur Nes. færi upp úr A riðlinum enda eina 1. deildarliðið þar en þau voru þrjú í B riðlinum. Auk Þróttar voru í riðlinum KA, HK United og Þróttur R C., sem vann riðilinn.
Þrír lykilmenn úr liði Þróttar fóru í sumar. Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir og Erla Rán Eiríksdóttir til Tromsö í Noregi og Zaharina Filipova til HK. Ýmislegt bendir til að veturinn verði erfiður hjá Íslands- og bikarmeisturunum, sem hefja titilvörnina með tveimur leikjum gegn Fylki í Neskaupstað um næstu helgi.
Körfuknattleikslið Hattar tapaði fyrsta leik sínum á tímabilinu gegn Haukum á Egilsstöðum 92-97. Höttur var yfir eftir fyrsta fjórðung 29-27 en Haukar yfir í hléi, 46-52 og síðan 68-74 eftir þriðja fjórðung. Þegar tvær mínútur voru eftir af leiknum voru gestirnir níu stigum yfir. Með góðum kafla minnkuðu Hattarmenn muninn í tvö stig en komust ekki nær.