Hreindýraveiðimenn hljóta dóma vegna aksturs á sexhjóli

Héraðsdómur Austurlands dæmdi í vikunni tvo menn í 80 þúsund króna sekt hvorn, fyrir hreindýraveiðar á sexhjóli og til greiðslu málsvarnarlauna verjenda sinna. Þá voru mennirnir sviptir veiðikorti í eitt ár.

tveir_litir-2.jpg

 

Mennirnir voru ákærðir fyrir brot á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, á Fljótsdalshéraði, með því að hafa sunnudaginn 26. ágúst 2007, farið á hreindýraveiðar, akandi á sexhjóli, frá Hjartarstöðum í Eiðaþinghá, þaðan eftir slóð, sem liggur frá vegi að eyðibýlinu Hamragerði, upp á Flatafjall og inn að Hölkná við Kirkjutungur í Hraundal, þaðan yfir Hölkná þvert yfir Kirkjutungurnar til þess að komast, sem næst veiðistað, þar sem annar mannanna skaut síðan eitt hreindýr í fylgd félaga síns, sem sagður var leiðsögumaður hans við veiðarnar.

Ennfremur var annar mannanna ákærður fyrir brot á lögum um náttúruvernd fyrir að hafa ekið hluta leiðarinnar, u.þ.b. 1-1,5 km utan vega og merktra slóða, nánar tiltekið yfir Hölkná í Kirkjutungum og þvert yfir Kirkjutungurnar í átt að veiðistað, en þá var ekið á gróinni, snjólausri og ófrosinni jörð, og valdið með akstrinum hættu á náttúruspjöllum.

Við upphaf málsmeðferðar fyrir dómi féll ákæruvaldið frá ákæru fyrir akstur utan vega og merktra slóða.

Mennirnir neituðu báðir sök.

Dómurinn telur að með því að hafa farið akandi á sexhjóli til hreindýraveiða hafi mennirnir brotið gegn ákvæðum laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Í lögunum segir að við veiðar megi nota vélknúin farartæki á landi, önnur en vélsleða, fjórhjól og önnur torfærutæki, til að flytja veiðimenn til og frá veiðilendum og þá eingöngu á vegum eða merktum vegaslóðum. Mennirnir óku á sexhjóli sem er eins og fjórhjól, nema stærra og fellur það því undir önnur torfærutæki í ákvæðinu.

Dómurinn segir engu breyta þótt mennirnir hafi gengið einhverja vegalengd áður en þeir felldu hreindýr. Þá segir að sá sem sagður var leiðsögumaður sé jafn brotlegur þeim sem felldi dýrið.

Refsing hvors um sig er að mati dómsins, hæfilega ákveðin 80 þúsund króna sekt og komi 6 daga fangelsi í stað sektar verði hún ekki greidd innan 4 vikna. Dómurinn segir brot mannanna ekki hafa tengst notkun skotvopna og því séu ekki efni til að svipta þá skotvopnaleyfi. Þeir verði hins vegar sviptir veiðikorti í 1 ár frá birtingu dómsins fyrir þeim.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.