Hugleiðingar í lok árs
Þessi tími árs einkennist af því að daginn styttir, það kólnar í veðri og síðast en ekki síst að jólin nálgast. Á aðventunni höfum við flest vanist því að fólk komi saman annað slagið til að undirbúa m.a. þá hátíð sem fram undan er, skerum út laufabrauðið, hamflettum eða reytum rjúpurnar, tendrum jólaljós o.fl.Vegna þeirra aðstæðna sem alheimsfaraldurinn hefur skapað er hins vegar útlit fyrir að minna verði um það núna að við komum saman og er það miður en svona er þetta bara og okkar er að laga okkur að því. Það kemur að því að þessu ljúki og munum við þá áhyggjulaus fá að njóta samveru hvers annars á nýjan leik og okkar gæfuríka samfélag mun ná eðlilegri virkni á ný.
Talandi um gæfuríkt samfélag þá er það nú svo að það að búa í fámennu samfélagi, þar sem allir þekkja alla, hefur bæði kosti og galla.
Einstaklingar hafa verið erkióvinir frá því að þeir voru litlir og lentu í slagsmálum eða vegna þess að foreldrar þeirra voru ekki vinir eða afar og ömmur. Einhver var ástæðan og nú er það svo að þeir og þeirra fjölskyldur eiga ekki í vinalegu sambandi. Reynsla okkar er hins vegar sú að verði einstaklingur fyrir áfalli þá snúa allir bökum saman og hjálpast að, burtséð frá því að mögulega sé ekki vinskapur á milli aðila. Þetta er munurinn á því að búa í fjöldasamfélagi þar sem, þótt fólk búi í sömu blokk eða sömu götu, samskiptin eru mjög takmörkuð. Þar af leiðandi er minna um að fólk pirrist þar hvert út í annað en einnig að fólk hlúi hvert að öðru sé þess þörf.
Það sem smæðin hefur kennt okkur m.a. er að öll, við sem hér búum, erum í raun vinir inn við beinið og gerum okkur grein fyrir því að öll skiptum við máli fyrir samfélagið. Samfélagið er ekki ég, ekki þú heldur erum það við öll sem myndum samfélagið.
Mín niðurstaða er því sú að það að búa í fámennu samfélagi eins og okkar feli í sér mun meiri kosti en galla.
Með þetta í huga og þeirrar gæfu að við skulum eiga þess kost að búa hér í okkar góða samfélagi óska ég okkur öllum gleðilegra jóla og gæfuríks komandi árs.
Höfundur er sveitarstjóri Múlaþings