Hvað gera okkar þingmenn við atkvæðagreiðslu ESB tillögu?

Þingmenn Norðausturkjördæmis virðast skiptast í tvær álíka stórar fylkingar í afstöðu sinni til þingsályktunartillögu um aðildarumsókn til Evrópusambandsins. Búist er við að atkvæði verði greidd um tillöguna síðar í dag.

 

Þrír þingmenn af níu hafa svarað fyrirspurn sem Austurglugginn sendi í gær í tölvupósti á alla þingmenn kjördæmisins um hvort þeir hygðust greiða atkvæði með tillögunni eða á móti.

Tryggvi Þór Herbertsson, Sjálfstæðisflokki og Höskuldur Þór Þórhallsson, Framsóknarflokki, ætla að greiða atkvæði gegn henni. Jónína Rós Guðmundsdóttir, Samfylkingunni, greiðir atkvæði með.

Reikna má með að samflokksmenn Jónínu, Kristján L. Möller og Sigmundur Ernir Rúnarsson, greiði atkvæði með tillögunni. Málflutningur þeirra í umræðum hefur verið á þann veg. Út frá ræðum Kristjáns Þórs Júlíussonar, Sjálfstæðisflokki, virðist hann ætla að greiða atkvæði gegn tillögunni.

Samkvæmt fréttum og heimildum Austurgluggans styður Birkir Jón Jónsson, Framsóknarflokki, tillöguna.

Steingrímur J. Sigfússon fékk í gær áskorun frá flokksmönnum í kjördæminu um að kjósa gegn tillögunni. Óvíst er hvort hann verði við henni en til þessa hefur hann virst líklegur til að kjósa með henni.

Illmögulegt var að átta sig á skoðun Þuríðar Backman út frá málflutningi hennar í gær, en hún var seinasti þingmaður í ræðustól í gærkvöldi. Aðra stundina virtist hún styðja tillöguna en næstu stundum varði hún í að vara við ógnum Íslands innan ESB og afsals fullveldis þjóðarinnar. Hún hefur ekki svarað fyrirspurn Austurgluggans.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.