Hvers vegna er ég að þessu?

Eftir Agnesi Arnardóttur:    Hvers vegna er ég að þessu?  Vegna þess að mig þyrstir í breytingar, miklar breytingar, þjóðin þyrstir í breytingar. Breytingar sem gefa okkur von um betra líf með fjölskylduna í forgrunni, líf þar sem við höfum meiri tíma fyrir börnin okkar og ekki síst getum lifað af laununum okkar.

Líf þar sem við höfum tíma til að lifa. Breytingar sem gefa okkur von um bjartari tíma, tíma sem við getum hlakkað til að upplifa.

agnes_arnardttir_vefur.jpg

Hvers vegna er ég að leggja á mig alla þessa vinnu sem fylgir því að fara í prófkjör?

Vegna þess að ég er svo reið, svo reið yfir því hvernig búið er að fara með okkur, búið að kippa fótunum undan mörgum fjölskyldum þessa lands, venjulegu fólki sem lifði venjulegu lífi, litlum og stórum fyrirtækjum sem stunduðu venjuleg viðskipi, námsmönnum sem voru að afla sér þekkingar til framtíðar og sakleysingjum sem ekkert höfðu til saka unnið. Alveg ösku reið vegna allra þeirra sem hafa misst vinnuna, allra þeirra fyrirtækja sem hafa orðið gjaldþrota og allra þeirra námsmanna sem ekki lengur hafa tækifæri til að mennta sig.

Hvers vegna er kona á miðjum aldri, norðan af landi að gefa kost á sér til setu á Alþingi Íslendinga?

Vegna þess að hún er hluti af þessari þjóð og vill leggja sitt af mörkum í þeirri miklu og erfiðu vinnu sem framundan er. Nýta þá reynslu sem hún hefur öðlast á sínum 47 árum, reynslu sem móðir og  húsmóðir, reynslu sem námsmaður, reynslu sem virkur þátttakandi í atvinnulífinu, reynslu sem farandverkamaður, reynslu af því að búa á mismunandi svæðum, reynslu af að búa erlendis, reynslu af að stunda vinnu í mismunandi löndum, reynslu af eigin atvinnurekstri.

Vegna þess að hún er venjulegur íslendingur sem lifir venjulegu lífi.

Hún er hluti almennings, þess almennings sem er orðin þreyttur á að bíða, þreyttur á að hlusta á þrasið í núverandi þingmönnum um hver gerði hvað og hver sagði hvað hvenær. Þreyttur á hálfsannleikanum, aðgerðarleysinu og ákvarðanafælni fyrri ríkisstjórna. Þreyttur á loforðum sem lítil innistæða var fyrir, þreyttur á ofurlaunum og bruðli.

Hvers vegna ættir þú að veita þessari konu brautargengi og gefa henni þitt atkvæði?

Jú, vegna þess að hún hefur kjark og þor til að horfast í augun við vandamálin og vilja til að vinna að lausn þeirra. Vegna þess að hún gerir sér grein fyrir því að vandamálin eru risavaxin og þau verða ekki leyst á einni nóttu, hún gerir sér fulla grein fyrir að litlir peningar eru til í ríkiskassanum vegna efnahagshruns sem rekja má til græðgisvæðingar, skorts á aðhaldi við fjármálastofnanir, óásættanlegrar ríkisábyrgðar á einkafyrirtækjum og mistaka við einkavæðingu ríkisbankanna. Hún veit að það þarf að taka sársaukafullar og erfiðar ákvarðanir, hún veit að það þarf að segja sannleikan og upplýsa þjóðina um raunverulega stöðu mála, hún veit að það þarf aðhald í ríkisfjármálum, að minnka yfirbyggingu og forgangsraða í fjárútlátum.

En ekki síður vegna þess að hún er stolt af því að vera íslendingur, stolt af að tilheyra þessari þjóð, þessari þjóð sem býr yfir þrautseigju og krafti, þjóð sem hefur alla burði til að vera sjálfbær, þjóð sem á miklar auðlindir. Auðlindir í náttúrunni, fólkinu  og hafinu í kringum landið. Auðlindir sem nýta verður af skynsemi og sanngirni. Búa til verðmæti úr raunverulegum hlutum, fullvinna afurðir, hvort heldur þær koma úr sjó eða af landi. Nýta þau tæki og tól sem við höfum aðgang að hér heima, fólkið, landið og sjóinn. Nýta frumkvöðlakraftinn, menntunina, tæknina, orkuna og læra af mistökum fyrri kynslóða.

Höfundur býður sig fram í 1.-2. sæti á lista Samfylkingarinnar í NA-kjördæmi.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.