Hvílum Íhaldið!

Höskuldur Þórhallsson skrifar um komandi Alþingskosningar.    Íslendingar hafa þurft að búa við það í rúm 17 ár, að síðustu tveim mánuðum undanskildum, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við völd. Frá árinu 1995 þegar Framsóknarflokkurinn hóf samstarf við Íhaldið gekk það að mörgu leiti vel. Framsóknarflokkurinn sem er frjálslyndur félagshyggjuflokkur stóð á þessum tíma vörð um velferðarkerfið og grunnatvinnuvegi þjóðarinnar til sjávar og sveita og gerir enn.

hssi6hskuldur_r_rhallsson_vefur.jpg

Árið 2003 ákváðu þessir tveir flokkar að halda samstarfinu áfram. Sú ákvörðun reyndist Framsóknarflokknum dýrkeypt. Þá þegar var ljóst að margir töldu að Framsóknarflokkurinn hefði færst of mikið til hægri og aðrir höfðu tekið sér stöðu hans á vinstri væng stjórnmálanna. Á margan hátt var það þó ekki rétt því eins og skýrt kom fram í skýrslu OECD frá sumrinu 2007 að heilbrigðiskerfið okkar var ekki aðeins gott heldur væri það öfundsvert á margan hátt. Framsóknarflokkurinn fór með heilbrigðismálin allan þennan tíma.

Hugtök eins og samvinna, jöfnuður, ábyrgði og skynsemi eru og verða grunnstefin í starfi Framsóknarflokksins. Á síðasta flokksþingi sammæltust flokksmenn um að gera upp við fortíðina, viðurkenna mistök og fara á ný að horfa fram á veginn. Fyrstu skref flokksins eftir þingið að verja minnihluta stjórn falli var líka einmitt í þeim anda. Skynsemi og ábyrgðarkennd flokksmanna bauð einmitt upp á það að á Íslandi væri starfhæf ríkisstjórn en stjórnarkreppa Sjálfstæðismanna og Samfylkingar var að stórskaða efnahag landsmanna. Framsóknarflokkurinn hafði á ný tekið sér stöðu á vinstri helmingi stjórnmálaflórunnar.

Í kosningum í vor er afar brýnt að hvíla Íhaldið. Í raun bráðnauðsynlegt. Sjálfstæðismenn hafa ítrekað boðað það að þeir muni halda upp fyrri stefnu og neita um leið að viðurkenna eigin mistök í bankahruninu. Fullyrða jafnvel að stefnan sé í lagi - flokksmenn hafi bara ekki staðið sig nógu vel.

Tími frjálshyggju með tilheyrandi ofurlaunum, skattaskjólum og sjálfhverfri einstaklingshyggju er einfaldlega liðinn. Í mínum huga er samvinna og samstillt átak sú leið sem er best til þess fallin að leiða þjóðina úr þeim hremmingum sem hún glímir við. Vinstri stjórn með þátttöku Framsóknarflokksins yrði best til þess fallin að fara þá leið við endurreisn Íslands.

Höfundur er alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn.  

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.