Í tilefni af degi leikskólans

Þann 6. febrúar ár hvert fögnum við degi leikskólans. Í ár er þessum degi fagnað í fjórtánda sinn og ærin ástæða til. Leikskólar eru stórkostlegar stofnanir og við hér á Egilsstöðum erum svo heppin að á Tjarnarskógi vinnur einnig stórkostlegt fólk. Það er dýrmætt að vita af barninu sínu öruggu og glöðu á daginn, umvafið fólki sem sýnir því umhyggju og gætir hagsmuna þess sem best það getur.

Undanfarið ár hefur auðvitað ekki verið neitt venjulegt ár þegar kemur að leikskólastarfinu frekar en nokkru öðru í okkar samfélagi. Heimsfaraldurinn hefur sett sinn svip á starfið, valdið auknu álagi á starfsfólk leikskólanna og ekki síður börnin okkar. Miklar breytingar á stuttum tíma, farið fram og til baka með reglur og viðmið og svo mætti lengi telja.

Börn höndla slíkar breytingar misvel og þurfa mislangan aðlögunartíma að breyttum aðstæðum. Starfsfólk leikskólans hefur í hvívetna lagt sig fram um gera þessar breytingar sem þægilegastar bæði fyrir foreldra og börn og reynt að koma til móts við þarfir hvers og eins í þessu breytta landslagi. Það er ómetanlegt.

Á þessum tímum finna foreldrar líka fyrir því hversu gott er að geta að öllu jöfnu fengið að fara inn á leikskóla barnsins síns og fylgjast með starfinu. Þeir eru nú orðnir ansi margir mánuðirnir sem leikskólarnir hafa ekki haft tök á því að hafa starfið, eða svo mikið sem fataklefa barnanna, aðgengilega fyrir foreldra.

Það er vel skiljanlegt og nauðsynlegt í ljósi aðstæðna en ég held ég tali fyrir hönd flestra foreldra þegar ég segi að við finnum svo sannarlega fyrir því. Þó manni hafi almennt ekki fundist viðvera foreldra í sjálfu starfinu mikil, þá finnur maður núna hversu miklu máli hún skiptir. Vöfflukaffi hér og jólaföndur þar gerir ótrúlega mikið fyrir samstarf foreldra og leikskóla, þó eflaust hafi hin örlítið rólegri stemming, sem myndast hefur í kringum slíka viðburði undanfarna mánuði, verið kærkomin mörgum.

Mörg börn byrjuðu á nýrri deild eða fluttust á milli húsnæðis í haust og einhverjir foreldrar því jafnvel aldrei komið inn á núverandi deild barnsins síns. Að koma inn á deildina á morgnana og heilsa starfsfólki, sjá hólf hinna barnanna til að átta sig betur á öllum persónum og leikendum í skemmtilegum sögum barnsins þegar það kemur heim og segir manni frá deginum sínum, er eitthvað sem maður vill ekki fara á mis við mikið lengur. Slíkt gefur aukna innsýn inn í hið sjálfstæða líf barnsins, sem eðlilegt er að foreldrar hafi mikinn og einlægan áhuga á.

En nú sjáum við vonandi fyrir endann á landslaginu eins og við þekkjum það í dag og getum vonandi bráðum aftur farið að njóta samverustunda með börnunum okkar á vinnustaðnum þeirra, þeirri stórmerkilegu menntastofnun sem leikskólinn er. Þar sem þau stíga fyrstu skrefin án okkar í lífinu, læra nýja og spennandi hluti á hverjum einasta degi undir handleiðslu kennara og leiðbeinenda sem bera hag þeirra fyrir brjósti. Við foreldrar fögnum því degi leikskólans ákaft og þökkum í dag sem og aðra daga fyrir hið frábæra fólk sem á svo stóran þátt í að undirbúa litlu gullin okkar fyrir lífið.

Höfundur er formaður foreldrafélags leikskólans Tjarnarskógar

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.