Í tilefni af degi leikskólans

Á degi leikskólans er viðeigandi að staldra við og spá í það hvaða hlutverki leikskólinn sinnir í samfélaginu. Þetta fyrsta skólastig barnanna okkar. Leikskólinn sinnir mikilvægu hlutverki hvað varðar menntun og mótun barna og verður að telja ábyrgð starfsfólks leikskóla afar mikla. Ábyrgð foreldra er ekki síður mikil en með þessum skrifum í dag er ætlunin að vekja athygli á mikilvægi samstarfs beggja aðila, og reyndar fleiri.

Leikskólinn grípur foreldra í margþættum skilningi. Án þeirra kæmust til dæmis foreldrar ekki inn á vinnumarkaðinn (a.m.k. ekki þann hefðbundna) að loknu fæðingarorlofi. Þar hafa foreldrar aðgang að fagfólki sem býr yfir mikilli reynslu og þekkingu. Með snemmtækri íhlutun hefur leikskólinn Tjarnarskógur unnið gríðarlega góða vinnu við það að fylgjast náið með börnunum og grípa inn í snemma, ef þess er talið þurfa, og hjálpa þannig bæði börnum og foreldrum.

Umræða um leikskólastarf er oft lituð af hagsmunum foreldra annars vegar og starfsfólki leikskóla hins vegar. En hverjir eru hagsmunir barna? Eru það hagsmunir 1 árs barns að vera 8 tíma í leikskóla? Er í einhverjum tilvikum verið að rugla hagsmunum foreldra við hagsmuni vinnumarkaðarins? Sveitarfélagið hefur byggt á því að stuðla að „barnvænu samfélagi“ og telur undirrituð að ákveðið samtal á milli tveggja aðila, vinnumarkaðarins og sveitarfélagsins, þurfi að eiga sér stað til þess að raunverulega sé hægt að búa til „barnvænt samfélag“. Vegna þess að þegar það að eiga barn sem er á leikskóla bitnar á vinnandi foreldrum, þannig að vinnustaðir gera einfaldlega ekki ráð fyrir hálfum degi hér, hálfum degi þar, óteljandi veikindadögum barna o.s.frv., þá hlýtur það á endanum að bitna á börnunum sjálfum – og er ekki einmitt verið að leggja til grundvallar að hagur þeirra sé hafður að leiðarljósi?

Það er þetta með jafnvægið sem við leitum eflaust öll að. Jafnvægi milli heimilis og vinnu, jafnvægið milli gæðastunda og fjarverustunda. Til að komast einhverju nær þessu jafnvægi hlýtur stór þáttur í því að vera samspil foreldra og leikskóla en það er ekki síður mikilvægt að sveitarfélagið og vinnumarkaðurinn eigi líka í góðu samstarfi til þess að samfélagið sé raunverulega barnvænt.

Höfundur er formaður foreldraráðs leikskólans Tjarnarskógar


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.