Innlit í líf útlendings á Íslandi

Góðan dag.

Til að byrja með langar mig að kynna sjálfan mig. Nafn mitt er Igor. Ég er frá Slóvakíu og hef búið hartnær þrjú ár á Íslandi. Á þeim tíma hef ég upplifað ýmislegt sem mig langar að deila með ykkur.

 

Spyrja má hvers vegna ég hafi komið til Íslands. Það er vegna ævintýragirni, metnaðar til að heimsækja framandi staði, kynnast hinu fágæta og líka vegna þess að ég er góður skíðamaður og er hrifinn af fjöllum og vetrarríki.

 

Jákvæð upplifun 

Í gegnum umboðsmann fann ég vinnu og hóf störf á Íslandi, við Kárahnjúkastíflu. Umboðsskrifstofan gaf mér heldur óljósar upplýsingar um hvers ég mætti vænta og hreint ekki um að ég yrði næstum hundrað kílómetra frá næsta byggða bóli, í miðjunni á því sem virtist endalaus snjóbreiða, umkringdur hreindýrahjörðum og með norðurljósin skínandi yfir mér.

Fyrir mann sem kemur frá miðri Evrópu, úr miklu iðnaðarsamfélagi og fjölbreyttu menningarumhverfi var þetta hin undarlegasta breyting. Á sama tíma nýjabrum sem vakti og ögraði og fyllti mig fullnægju og kyrrð. Við Kárahnjúka hitti ég í fyrsta skipti á ævinni fólk af fjölmörgu þjóðerni. Fólk frá Kína, Pakistan, Nepal, Suður-Ameríku, Filippseyjum, Þýskalandi, Austurríki og Póllandi og bara alls staðar að úr veröldinni. Þetta fólk var yfirleitt hingað komið vegna bágs efnahagsástands heima fyrir, þar sem þeim var ekki gert kleift að þéna næga peninga til að lifa sómasamlegu lífi.

Eftir næstum níu mánaða vinnu við Kárahnjúka sneri ég til míns heimalands til að hitta fjölskylduna, vini og til að sjá og finna að nýju hvað ég hafði skilið eftir. Samlandar mínir spurðu um lífið á Íslandi. Um fólkið, venjur þess og lífshætti. Svör mín voru eingöngu jákvæð og ég ráðlagði öllum sem spurðu að heimsækja Ísland, skoða náttúru landsins og dvelja þar um hríð.

 

Á skjön 

Tveimur mánuðum síðar hringdi umboðsskrifstofan aftur og bauð mér nýtt starf á Íslandi. Ég sneri því aftur og hélt áfram þar sem frá var horfið.

Ég var í þetta skiptið ráðinn til Alcoa Fjarðaáls. Ég hef háskólamenntun í efnaverkfræði en vann hjá Fjarðaáli sem vélvirki. Ég var ekki allskostar sáttur við starfið vegna þess að það tengist hvorki menntun minni né fyrri starfsreynslu. Oft ræddi ég við vinnuveitanda minn um að ég væri ekki ánægður og bað um þjálfun og tilfærslu í annað starf sem henta myndi betur þekkingu minni, en án árangurs. Helsta vandamálið virtist vera að ég tala ekki íslensku. Persónulega finnst mér það ranglátt og í raun fyrirsláttur, því flestir Íslendingar tala mjög góða ensku og því auðvelt að eiga samskipti þannig.

Margir í sömu stöðu upplifa mikið óöryggi og hafa þurft að beita sig hörðu til að komast yfir það. Að maður tali nú ekki um hversu nærri sjálfstrausti fólks slíkar aðstæður geta gengið. Ég gerði mér þarna ljóst að innflytjendur vinna aðeins erfiðustu og lægst launuðustu störfin. Í fyrsta sinn upplifði ég hyldjúpa mismunum milli innfæddra og innflytjenda. Og trúið mér, þetta er afar vond tilfinning.

 

Mismunun staðfest 

Þegar þarna var komið sögu var ég í Reykjavík til að byggja frekar undir háskólanám mitt og kom til baka með diplómu í tæknifræði. Það breytti þó engu og ekki tókst að hnika neinu til varðandi starf mitt. Einn daginn hringdi vinnuveitandinn og tilkynnti mér að hann hefði endað starfssamninginn við mig. Hvorki hann né neinn annar útskýrði ástæðu þess fyrir mér. Nokkrum mánuðum áðum hafði viðkomandi lofað mér og fleirum framhaldi á störfum okkar hjá verksmiðjunni. En nú var okkur sagt upp.

Ég skil ekki hvað gerðist þarna og verð að segja að víðar er pottur brotinn hér á landi en í efnahagsmálum. Uppsögnin var mikið áfall fyrir mig persónulega og það stærsta sem ég hef orðið fyrir hér á Íslandi. Grunsemdir mínar um mismunun, þó falin sé, urðu að fullvissu. Flestir innflytjendurnir sem unnu erfiðustu og lægst launuðu störfin í verksmiðjunni, voru sendir heim án viðunandi útskýringa! Ég hygg að þeir hafi alls ekki átt það skilið, nema síður væri. Fólkið þeirra heima mun spyrja hvernig hafi verið að vinna á Íslandi. Hverju haldið þið að þetta fyrrverandi starfsfólk Alcoa Fjarðaáls muni svara?

 

Vond auglýsing 

En nóg um þetta. Lífið heldur áfram og núna er ég í biðstöðu, atvinnulaus, vonast eftir betri tíð og er í millitíðinni í hörkunámi í íslensku.

Kannski verð ég aftur sæll og ánægður hér. Það veltur þó ekki aðeins á mér sjálfum, því það sem ég upplifði með félögum mínum verður ekki útmáð og eftir situr beisk tilfinning.

Ég held að íslenska samfélagið og sérstaklega yngri kynslóðirnar, muni finna úrlausn fyrir ínnflytjendur og sýna þeim aukinn skilning. En það mun kosta mikla vinnu og natni. Trúið mér, það er vond auglýsing fyrir landið að fólk alls staðar að úr heiminum fari héðan vonsvikið og með þá tilfinningu að það hafi aldrei haft neina möguleika af því það var af öðru þjóðerni.

 

Með bestu kveðju,

Igor

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.