31 JARÐGÖNG Á MIÐ - AUSTURLANDI

 Það vakti athygli þegar hópur áhugafólks um jarðgangagerð hittist í Mjóafirði í lok júnímánaðar. Á þessum fundi má segja að endurvakin hafi verið umræða, sem að mestu hafði legið niðri í tvo áratugi, um gerð jarðganga á Mið – Austurlandi, þ.e. frá Eskifirði til Seyðisfjarðar með viðkomu í Norðfirði og Mjóafirði og frá fjörðunum til Héraðs.

Á sínum tíma var höfuðáhersla lögð á að rjúfa vetrareinangrun , en nú er þetta ekki síst spurningin um að færa okkur inn í nútímann í samgöngumálum , stytta vegalengdir milli byggðarlaga og gera svæðið að einni atvinnulegri , félagslegri og menningarlegri heild.

   Ég verð að játa, að ég varð undrandi þegar ég sá það haft eftir samgönguráðherra í Morgunblaðinu 3.júlí sl að þetta væri “ ágæt hugmynd en óraunhæf” eins og segir í fyrirsögn og í lok greinarinnar er haft orðrétt eftir ráðherra. “ Ég tel að það sé ekki rétt að vekja óraunhæfar vonir með fólki. Áður en lengra er haldið skulum við ljúka þessum framkvæmdum sem næstar eru á dagskrá.”

  Við þetta hef ég eitt og annað að athuga. Það er t.d. dálítið mótsagnakennt að telja hugmynd í samgöngumálum hvorttveggja í senn ágæta og óraunhæfa. Ég tel einmitt að einn helsti kostur þessarar ágætu hugmyndar sé hve raunhæf hún er. Og hún var það strax fyrir tuttugu árum. Að því kem ég á eftir. Ummæli ráðherra í lokin tel ég byggð á misskilningi. Okkur er það fyllilega ljóst – og  við það höfum við lýst fullum stuðningi – að gerð jarðganga milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar er fremst í röðinni. Fáskrúðsfjörður er hluti af Mið-Austurlandi og við fögnum að sjálfsögðu bættum tengslum í suðurátt. En þetta er bara eitt skref , það fyrsta á mun lengri leið.

  Fyrir tæpum áratug, nánar tiltekið 1993, voru jarðgöng frá Norðfirði til Seyðisfjarðar fremst í forgangsröðinni hjá jarðganganefnd , en vegna aðstæðna á Vestfjörðum ákváðu Austfirðingar að styðja það að fyrst yrði ráðist í jarðgöng á Vestfjörðum, göngin undir Botns- og Breiðadalsheiðar.

 Um þetta var gert heiðursmannasamkomulag , sem því miður hélt ekki ( Ég tek fram að þar var ekki við þingmenn Vestfirðinga að sakast) og þess vegna er staðan í þessum málaflokki mun lakari hér en í öðrum landshlutum. Við breytum ekki orðnum hlut, en nú er komið að okkur. Við ætlumst til þess að strax að Fáskrúðsfjarðargöngunum loknum verði hafist handa við göng frá Eskifirði yfir í Fannardal í Norðfirði, og síðan áfram norður eftir til Mjóafjarðar og Seyðisfjarðar .

 Það er nauðsynlegt  að hætt verði að líta á jarðgangagerð sem sérverkefni , jafnvel dekur- eða lúxusverkefni ,  heldur sem sjálfsagðan þátt í nútímavegagerð eins og hjá öðrum þjóðum . Við lifum í fjöllóttu landi og ef við ætlum að halda landinu  í byggð , en um það virðast landsmenn nokkuð sammála, verðum við að hætta að klifra með vegina yfir fjöllin og bora í þess stað í gegnum þau.
Það gengur heldur ekki að jarðgangagerð sé eins skrykkjótt og verið hefur. Gerð hafa verið ein göng og síðan pústað eins og lyftingakappi að lokinni mikilli aflraun , sem vill hvíla sig fyrir þá næstu. Gera þarf áætlun til amk tíu ára í senn og vinna eftir henni samfellt svo íbúarnir sjái að eitthvað er að gerast og að mál þokast í rétta átt. Slíkt vekur fólki bjartsýni og bjartsýnin er einn helsti hvati framkvæmda. Við blásum á allt tal um að jarðgöng séu of dýr. Þau rök halda ekki lengur og  hafa hamlað eðlilegri þróun byggðar á Íslandi um áratugi , ýtt undir búferlaflutninga til Suðvesturlands og valdið þjóðarbúinu ómældu tjóni. Þetta þjóðhagslega tjón hefur aldrei verið tekið með í arðsemiútreikningum.

  Og það er svo margt fleira , sem ekki er inni í þeim útreikningum. Tökum eitt dæmi
Þegar við ökum til Norðfjarðar um Oddsskarð, til Mjóafjarðar um Mjóafjarðarheiði og til Seyðisfjarðar um Fjarðarheiði erum við að aka inn í landsins lengstu“botnlanga”.   Vegurinn endar út við haf og við verðum að aka sömu leið til baka. Þetta hefur verið hamlandi í bæði atvinnu- og félagslegu tilliti og að mínu viti á þessi staða stærstan þátt í fólksfækkun á þessum stöðum síðasta áratuginn. Verði ekkert að gert mun þessi þróun halda áfram og án jarðganga munu hin byggðarlegu áhrif , sem stefnt er að með byggingu álvers í Reyðarfirði, ekki nást. Svo einfalt er það.

  Undanfarin ár hefur höfuðáhersla verið lögð á greiðar samgöngur milli landsbyggðar og höfuðborgar. Mörg stórvirki hafa verið unnin í samgöngumálum , en tenging byggðanna innan landsfjórðunganna hefur því miður setið á hakanum.úr því þarf að bæta og við þurfum að byrja ekki seinna en strax, því samgöngur,góðar eða slæmar, eru meiri örlagavaldur í byggðaþróun nú en nokkru sinni fyrr í sögu landsins.

  Í þessu greinarkorni hefur aðeins verið drepið á fátt eitt og ég vonast til þess að fá til þess tækifæri síðar að koma að öðrum þáttum. En ég tel mig þó hafa sýnt fram á, að gerð jarðganga milli þéttbýlisstaða á Mið-Austurlandi er síður en svo “óraunhæf hug-mynd”, heldur raunhæf, nauðsynleg og löngu tímabær framkvæmd.
 


                                                                             Höfundur er framkvæmdastjóri
                                                                             Samvinnufélags útgerðarmanna í
                                                                             Neskaupstað ( SÚN )
 

 

Grein birt í morgunblaðinu  25. júlí 2002
      Greinarhöfundur: Kristinn V. Jóhannsson  Neskaupstað

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.