Þjóðleiksverk frumsýnd á Austurlandi

Austfirskir skólar frumsýna nú hver á fætur öðrum leikrit undir merkjum Þjóðleiks. Leikhópurinn Lopi á Höfn og Leikfélagið Djúpið í Verkmenntaskóla Austurlands hafa þegar frumsýnt sín verk. Annað kvöld frumsýna grunnskólar Eskifjarðar og Borgarfjarðar eystra og Seyðfirðingar á laugardag. Þrettán hópar alls munu sýna frumsamin verk þriggja höfunda; þeirra Bjarna Jónssonar (Ísvélin), Sigtryggs Magnasonar (Eftir lífið) og Þórdísar E. Þorvaldsdóttur Bachmann (Dúkkulísa). Hóparnir sýna svo verkin á mikilli leiklistarhátíð á Egilsstöðum í áliðnum apríl.

_j_leikur_2.jpg

Þjóðleikur er tilraunaverkefni sem Þjóðleikhúsið stendur fyrir á Austurlandi í vetur. Verkefnið miðar meðal annars að því að efla leiklistarstarf ungs fólks og hvetja til nýsköpunar í íslenskri leikritun. Þjóðleikhúsið er aðili að Vaxtarsamningi Austurlands og hefur samvinnu við menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs og fleiri aðila á Austurlandi um skipulag og framkvæmd þessa nýstárlega verkefnis.

Þjóðleikur er fjölþætt verkefni en því mun ljúka með allsherjar leiklistarhátíð ungs fólks í apríl. Allir hópar gátu skráð sig og eina skilyrðið var að að minnsta kosti einn fullorðinn einstaklingur leiddi hópinn, að leikarar væru að minnsta kosti 8-10 talsins og á aldrinum 13-20 ára (fæddir 1988-1995). Hópar frá þrettán skólum taka þátt í verkefninu.

Eitt sem hamlað getur því að skólar setji upp leiksýningar er skortur á vönduðum leikverkum fyrir unga leikara. Þrjú glæný 45 mínútna leikrit voru því skrifuð sérstaklega fyrir Þjóðleik af þekktum leikskáldum af yngri kynslóðinni. Höfundarnir eru Bjarni Jónsson (Ísvélin), Sigtryggur Magnason (Eftir lífið) og Þórdís Elva Þorvaldsdóttir Bachmann (Dúkkulísa). Verkin þrjú bjóða öll upp á mörg bitastæð hlutverk og vandaðan texta fyrir unga leikara.

Þjóðleikhúsið veitir listrænum stjórnendum Þjóðleiks-hópanna aðstoð í formi faglegrar ráðgjafar og námskeiða bæði í Reykjavík og á Austurlandi. Þar eru teknir fyrir þættir eins og leikmyndahönnun, ýmis konar sviðstækni, leikstjórn og skipulag æfingaferlis. Leiðbeinendur á námskeiðunum er listafólk sem allt er í fremstu röð hvert á sínu sviði.

Hver hópur sýnir í sínum skóla eða heimabyggð á þeim tíma sem honum hentar, en í lok apríl verður sem fyrr segir efnt til stórrar uppskeruhátíðar þar sem allir hóparnir sýna á Egilsstöðum. Þar geta þátttakendur hitt annað ungt leikhúsáhugafólk af Austurlandi, spjallað við leikskáldin, borið saman bækur sínar og séð afrakstur hinna hópanna.

tjodleikur_merki.jpg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.