Þjóðlendukröfur ríkisins eru hluti af græðgisvæðingu samfélagsins

Frá Landssamtökum landeigenda:    „Þjóðlendumálið er einn angi græðgisvæðingar sem á endanum leiddi mikla ógæfu yfir þjóðina. Ríkisvaldið réðst að sjálfum eignarréttinum, einum af hornsteinum samfélagsins með öfgafullum og siðlausum kröfum án þess að spyrja um afleiðingar og herkostnað. Landeigendur eru margir hverjir í sárum eftir þá viðureign.“

Þetta sagði Örn Bergsson, formaður Landssamtaka landeigenda, meðal annars í skýrslu stjórnar til aðalfundar samtakanna í Reykjavík á föstudaginn var,  20. febrúar. Hann minntist þess að núna er liðinn réttur áratugur frá því fyrsta kröfugerð ríkisins í þjóðlendumálum var lögð fram, 1. mars 1999 í Árnessýslu. Landssamtök landeigenda voru stofnuð í ársbyrjun 2007 til að standa vörð um hagsmuni landeigenda í þjóðlendumálinu en á aðalfundinum núna var samþykkt að breyta lögum samtakanna til að auka verulega umboð þeirra til hagsmunagæslu landeigenda, meðal annars gagnvart stórfyrirtækjum, opinberum fyrirtækjum og stofnunum og aðilum á þeirra vegum. Fram kom í skýrslu formannsins að landeigendur sjálfir hefðu kallað eftir því að samtökin yrðu líka brjóstvörn þeirra til dæmis gagnvart Vegagerðinni, Landsvirkjun, Landsneti og RARIK og vegna annarra opinberra framkvæmda. Einnig gagnvart Alþingi og opinberri stjórnsýslu vegna laga og reglugerða þar sem til dæmis væri gengið á rétt landeigenda varðandi eignarnám hins opinbera og framkvæmd eignarnáms.

  

Nú er búið að taka um það bil helming Íslands til umfjöllunar samkvæmt þjóðlendulögunum nr. 58/1998 og kveðnir hafa verið upp 27 dómar í Hæstarétti varðandi þjóðlendur. Í máli margra manna á aðalfundinum kom fram, þar á meðal hjá lögmönnunum Friðbirni F. Garðarssyni og Ólafi Björnssyni, að lögð væri óeðlilega þung sönnunarbyrði á landeigendur í  málarekstri vegna eignarréttar síns gagnvart ríkinu. Þar af leiðandi ríkti nú ákveðin réttaróvissa sem einungis yrði eytt með lagabreytingu.

  

Landeigendur gagnrýna Óbyggðanefnd fyrir hönd stjórnvalda fyrir að úrskurða lögmönnum landeigenda mun lægri málsvarnarlaun en sem svarar raunverulegum kostnaði við málareksturinn, jafnvel innan við helming lögfræðikostnaðarins. Þessu mótmæltu landeigendur harðlega í bréfum til ríkisstjórnarinnar á árinu 2008 en forsætisráðherra og fjármálaráðherra vísuðu erindum þeirra á bug. Landeigendur Reykjahlíðar ehf. í Mývatnssveit kærðu þá úrskurð Óbyggðarnefndar um málsvarnarlaun til umboðsmanns Alþingis og umboðsmaður komst að þeirri niðurstöðu að úrskurður nefndarinnar um málskostnað Reykjahlíðar samrýmdist hvorki efniskröfum stjórnsýslulaga né þjóðlendulaga.

  

Stjórn Landssamtaka landeigenda var endurkjörin á aðalfundinum. Hana skipa Örn Bergsson, Hofi í Öræfum, formaður, Guðný Sverrisdóttir, Grenivík, Ólafur H. Jónsson, Reykjavík, Óðinn Sigþórsson, Einarsnesi í Borgarfirði og Gunnar Sæmundsson, Hrútatungu í Vestur-Húnavatnssýslu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.