Kennir brátt ýmissa grasa

Vorfiðringurinn er farinn að láta á sér kræla. Ég átta mig ekki á hversu stór hluti hans er eðlislæg þrá mín eftir að sjá blessaða farfuglana raða sér inn tegund eftir tegund og gróður taka við sér. Einhver hluti er tvímælalaust þrá eftir pólitísku vori. Von um að orrahríðinni sloti og trúverðugt fólk gangi fram fyrir skjöldu sem boðberar einlægni, sannleika og gagnsæis í íslenskum stjórnmálum.

Við erum öll kúguppgefin á þjóðmálunum. Á nálum og með böggum hildar um afkomuna frá degi til dags. Austfirsk umræða um til dæmis málefni Heilbrigðisstofnunar Austurlands og sú úlfúð sem hana einkennir var ekki ofan á annað bætandi. Né heldur uppnámi vegna hruns Kaupfélags Héraðsbúa og stíflum í samningagerð um yfirtökur reksturs félagsins eftir félagsfund, þar sem samningsaðilar þverskölluðust við að opinbera félagsmönnum yfirtökusamningana. Önugt er þetta og ekki nema von að menn ýfi sig.

 

Vorið er að verða mitt haldreipi í darraðardansi þessara daga. Í gegnum pólitískan orðaflauminn greini ég bergmál af söng lóunnar og vængjaþyt, ímynda mér ilm gróðursins og liti. Fegurð hins smáa og nýkviknaða. Og víst mun kenna ýmissa grasa líka í pólitísku vori og ef til vill verða einhverjir þættir haldreipisins traustir og þess virði að grípa um og fylgja.

 

Við bíðum átekta um sinn og reynum að greina kjarnann frá hisminu.

 

Í lokin vil ég endilega deila með ykkur hugmynd sem einn besti sonur Austurlands kom fram með þegar Davíð Oddsson yfirgaf Seðlabankann í síðasta sinn. Hann stakk upp á því að líkt og Jóni lærða forðum yrði Davíð boðin friðarhöfn á Austurlandi; næði til að sinna hugðarefnum sínum fjarri pólitískum óróa, hér í véum sátta og samlyndis. Hvað finnst ykkur?

 

Steinunn Ásmundsdóttir

(Leiðari Austurgluggans 5. mars 2009)

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.