Kjósendur hafa úr sjö framboðum að velja
Sjö framboð og flokkar hafa skilað inn framboðslistum og meðmælendum í Norðausturkjördæmi. Framboðsfrestur er runninn út. Framboðin eru Borgarahreyfingin, Framsóknarflokkurinn, Frjálslyndi flokkurinn, Lýðræðishreyfingin, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstrihreyfingin – grænt framboð.
Yfirkjörstjórnir fara nú yfir framboðin og gögn sem þeim fylgja og ákveða hvort framboð teljast gild. Á föstudag fundar landskjörstjórn og fer yfir framboðin og afgreiðir þau. Kjörseðlar verða prentaðir á vegum dómsmálaráðuneytisins strax eftir að úrskurður landskjörstjórnar liggur ljós fyrir og verður dreift til yfirkjörstjórna næstkomandi mánudag. Í kjölfarið dreifa þær kjörseðlum til einstakra kjördeilda. Alþingiskosningar fara fram laugardaginn 25. apríl.