Krakkar eru flottir

Um helgina voru fjörtíu krakkar á aldrinum sjö til þrettán ára í skátaútilegu á Eiðum. Þau komu sér fyrir í sumarbústöðum með allt sitt dót, elduðu sjálf risaskammt af gómsætri kjötsúpu, fóru í langar gönguferðir og leystu allskyns þrautir, ásamt því að syngja og skemmta sér saman.

krakki2.jpg

Sjö ára krílin gáfu þeim eldri lítið eftir í sjálfsbjargarviðleitni og alveg merkilegt að sjá hvað þessir krakkar geta, sé þeim bara treyst fyrir hlutunum. Við föllum mörg í þá gryfju að ofvernda börnin okkar og leyfum þeim ekki að spreyta sig sem skyldi. Sömuleiðis ofdekrum við þau og firrum ábyrgð. Samt erum við öll að gera okkar besta í foreldrahlutverkinu, sumir hlutir fara bara fyrir ofan garð og neðan í erli dagsins. Að horfa á dugnaðinn í krökkunum minnti mig á hversu mikils þau eru megnug. Það hvarflar þó ekki að mér að gleyma að ,,Aðgát skal höfð í nærveru sálar“ og það ekki síst ungrar sálar. Þessi blessuð börn okkar eru eins og páskaliljurnar sem bráðum stinga upp kollinum, viðkvæm og fljótsprottin, en þó svo einkennilega sterk og einbeitt.

 

Alveg get ég orðið fokvond yfir því að samfélagið leyfir gemlingunum okkar ekki að vera börn nema rétt yfir bleyjuskeiðið. Undanskil ég þó skólakerfið frá þessu. Börnin eru rétt tekin að ná upp fyrir borðbrúnina með nebbatítuna þegar litskrúðugar og lokkandi auglýsingar hrannast inn í gegnum allskyns miðla frá bönkum, fatafabrikkum, hamborgarakeðjum og plastdóta-verslunum. Auglýsingar sem eru stútfullar af gylliboðum um að börnin verði hamingjusöm, falleg og vinsæl ef þau bara fái ,,svona.“ Allt sem markaðssett er fyrir þau er óhollt, einnota, fals. Nammibarir, ruslleikföng sem endast ekki daginn, skyndibita- og ruslfæði, myndir og tölvuleikir með illa földu ofbeldi og yfirþyrmandi hávaða og látum. Skilaboð um ,,rétt“ útlit stúlkna taka líka að berast þeim mjög snemma. Sem dæmi má nefna að tískuföt lítilla telpna eru oft á tíðum líkari flíkum súludansara og  mjólkurfyrirtæki sendir kornungum stúlkum póst um að drekka fitulitla mjólk svo ,,línurnar verði í lagi.“

Ég er hrifin af því sem stuðlar að aukinni neytendavernd fyrir börn og að miklu meiri höft verði sett á markaðssókn sem beinist að börnum. Leyfum kiðunum okkar að vera lítil þangað til þau þurfa að verða stór til að kljást við fullorðinsveröldina á eigin spítur. Að svo mæltu hneygi ég mig fyrir öllum uppalendum barna. Ábyrgðarmeira hlutverk er tæpast finnanlegt og langflestir að gera sitt allra besta. Ég ætla þó að leyfa mér að hneygja mig langdýpst fyrir börnum sjálfum. Þau eru framtíðin og ég held að þrátt fyrir allt spjari þau sig í þessum skrítna heimi.

 

Steinunn Ásmundsdóttir

(Leiðari Austurgluggans 19. mars sl.)

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.