Kynningarferli á stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Dyrfjöll og Stórurð á lokametrunum

Umhverfisstofnun hefur, í samstarfi við landeigendur og sveitarfélagið Múlaþing, unnið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir landslagsverndarsvæði norðan Dyrfjalla og náttúruvættið Stórurð en svæðin voru friðlýst árið 2021.

Stjórnunar- og verndaráætlun er gerð á grundvelli laga um náttúruvernd en þar er fjallað um með hvaða hætti verndargildi svæðisins verður viðhaldið auk þess sem lagðar eru fram hugmyndir að uppbyggingu innviða næstu ára.

Vinnan hófst á haustmánuðum 2022 þegar samstarfshópur var settur saman en sæti í hópnum skipa fulltrúar þeirra þriggja jarða sem friðlýsta svæðið nær yfir, þ.e. Hrafnabjarga, Sandbrekku og Unaóss-Heyskála auk fulltrúa heimastjórna Borgarfjarðar og Fljótsdalshéraðs.

Hópurinn stóð fyrir íbúafundi í Hjaltalundi þann 17. apríl 2023 þar sem umræður sköpuðust um framtíð svæðisins. Nánari upplýsingar um vinnu hópsins og íbúafundinn er að finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

Leiðarljós þessa samstarfshóps var að skapa með stjórnunar- og verndaráætlun, umgjörð um svæðið þannig að náttúran fái að þróast á eigin forsendum á sama tíma og ólíkir hópar geti upplifað svæðið í sátt við náttúruna og hver annan.

Í þeirri viðleitni hefur aðgerðaráætlun verið lögð fram sem á m.a. að gera fólki kleift að njóta náttúrunnar, að náttúra og landslag fái notið sín og að þeir sem um svæðið fari njóti öryggis um leið og leit og björgun valdi ekki tjóni á náttúrfari. Allar aðgerðir sem kynntar eru í áætluninni eru með þeim fyrirvara að fjármagn fáist til uppbyggingarinnar.

Lagt er kapp á að fá sem flesta að borðinu þegar áætlun sem þessi sem er til kynningar en því fleiri sjónarmið sem koma fram, þeim mun raunhæfara er að skapa stefnumótun sem nýst getur til framtíðar.

Við hvetjum alla sem áhuga hafa að kynna sér áætlunina og senda inn ábendingar eða athugasemdir ef einhverjar eru. Samstarfshópur mun vinna úr ábendingum og athugasemdum sem verður svarað í lok kynningartíma.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.