Lækkun leikskólagjalda - óumdeilanlega fyrsta skólastigsins

Leikskólar sinna gríðarlega mikilvægu hlutverki og faglegt starf sem fram fer á þessu fyrsta skólastigi er grunnurinn að því sem koma skal. Það er því til mikils að vinna að huga vel að líðan barna og starfsfólks og tryggja heilsusamlegt og nærandi umhverfi fyrir alla.

Kulnun starfsfólks menntastofnanna er raunveruleiki sem við þurfum að bregðast við og á það við um öll skólastig. Leikskólakennurum fer fækkandi og eru ekki nema 26% af starfshóp þegar lögbundið hlutfall er 67% og æ fleiri færa sig yfir á grunnskólastig m.a. vegna starfsaðstæðna. Fjölbreytileiki nemendahópa er einnig mikill og viðhorfsbreytingu þarf til að taka á því álagi sem skapast þegar nemendur með ólíkar þarfir þurfa sérúrræði innan skólans. Aukin breidd fagstétta sem starfar innan skólasamfélagsins væri t.a.m. til þess fallin að nemendur fengu viðeigandi stuðning hverju sinni og kennarar hefðu þannig aukið svigrúm og tækifæri til að vinna sitt faglega starf og koma til móts við alla nemendur, hvar sem þeir eru staddir. Í þessu liggja tækifæri sem vert er að skoða.

Óumdeilanlega fyrsta skólastigið

Leikskólinn er ekki skilgreindur á þjónustustigi þó umræðan sé oft í þá átt. Leikskólinn er fyrsta skólastigið en í lögum um leikskóla (90/2008) segir: „Veita skal börnum umönnun og menntun, búa þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og örugg náms- og leikskilyrði.“. Það er því vissulega lögbundið þjónustuhlutverk leikskóla að tryggja þeim menntun og umönnun sem svarar til aldurs þeirra og þroska en faglegt starf er unnið eftir aðalnámskrá líkt og á öðrum skólastigum.

Framsókn vill horfa til þess að gera leikskólann að skyldubundnu skólastigi og fara í greiningarvinnu á kostum og göllum við slíka breytingu. Með slíkri aðgerð er stigið skref í átt að því að leikskólinn verði óumdeilanlega fyrsta skólastigið sem er staðreynd sem mikilvægt er að virða. Í fyllingu tímans væri eðlilegt að ríkið tæki þátt í rekstri leikskóla vegna þeirrar skyldu sem hvílir á sveitarfélögum að reka leikskóla því ekkert sveitarfélag vill án þessarar mikilvægu menntastofnunar vera.

Við í Framsókn í Múlaþingi viljum því stefna að því að gera leikskóla sveitarfélagsins gjaldfrjálsa og hefja þá vinnu á elsta árgangi. Faglegt starf yrði þannig skipulagt með sama hætti og í grunnskólum og síðan frístundarstarf að því loknu. Þannig hefðu foreldrar, sem þurfa vistun fyrir börnin sín lengur á daginn, kost á að nýta sér dagvistun sambærilega og boðið er upp á í grunnskólum að skóladegi loknum. Þessi aðgerð yrði unnin í samráði og samvinnu við fagfólk leikskólans.

Raunhæf markmið

Við þurfum að setja okkur raunhæf markmið í þessu eins og öðru því ekkert vinnst með hvatvísi og fögrum fyrirheitum sem ekki er innistæða fyrir. Við teljum þessa aðgerð raunhæfa að teknu tilliti til þeirrar greiningarvinnu sem fara þarf fram samhliða með þeim fagaðilum sem búa að reynslu og þekkingu á þessu sviði. Aukin fagleg breidd í starfshópum innan skólanna gæti komið sér vel samhliða þessum aðgerðum og komið að hluta í veg fyrir að mönnunarvandi færi áfram vaxandi. Það verður aldrei metið til fjár hversu dýrmætt það er að hafa innan menntastofnanna, vel menntað fólk sem er áhugasamt um menntun og velferð barnanna okkar. Um það viljum við standa vörð.

Höfundur skipar 3. sæti á lista Framsóknar í Múlaþingi

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.