Landnám Austurlands

„Þeir höfðu siglt í nokkra sólarhringa þegar land reis úr hafi. Það kom þeim ekki á óvart því þeir höfðu haft spurnir af stórri eyju langt í vestri en enginn hafði þó enn numið þar land, að því þeir best vissu. Fyrir stafni sáu þeir nú fjallgarð sem virtist óslitinn og beinn svo langt sem augað eygði en þá grunaði þó að ströndin væri vogskorin, enda komnir frá strandlengju Noregs.“

Einhvern veginn svona gæti sagan um landnám Austurlands hafist en hvar fyrstu landnámsmennina bar að landi, vitum við ekkert um og munum líklega aldrei vita. Austurland er sennilega sá landshluti sem spilar minnsta rullu í fornsögum okkar og heimildum og einhvern tímann heyrði ég fræðimann segja að líklega væri það vegna þess hversu friðsamir og samvinnufúsir Austfirðingar voru og því lítið um að skrifa. Sannast þar að ekki er gaman að guðspjöllunum ef enginn er í þeim bardaginn.

Íslandssagan endurskoðuð?

Nú ber svo við að íverustaður hefur fundist á Austurlandi, svo forn að hann gæti kollvarpað hugmyndum okkar um landnám Íslands og fært okkur heim sanninn um hið augljósa, nefnilega að Austurland var fyrsti landsfjórðungurinn sem var numinn. Landnámsmenn komu úr austri og því blasir við að þeir komu að landi á Austfjörðum og settust þar að áður en þeir fóru annað.
Íverustaðurinn sem ég minntist á hér að ofan, er að sjálfsögðu hinar fornu bæjarrústir sem nú er verið að rannsaka í Stöð í Stöðvarfirði og eru að minnsta kosti hálfri öld eldri en dagsett koma Ingólfs Arnarsonar til landsins; líklega talsvert eldri en það því ýmislegt bendir til þess að hann gæti verið frá því fyrir árið 800 en við skulum halda okkur við ártalið 820 þar til annað sannast.

Fáar hræður sem velta þungu hlassi

Eitt stendur þessum rannsóknum fyrir þrifum og það er fjárskortur. Íslenska ríkið, sem ræður flestu á Sögueyjunni eins og við köllum landið gjarnan á hátíðarstundum, leggur sáralítið fé til fornleifarannsókna, samtals um 45 milljónir ár hvert. Þær skiptast á milli um 80 umsækjenda og hefur hlutur rannsóknanna í Stöð verið um 3,5 milljónir króna á ári. Þess utan hafa samtök heimamanna safnað öðru eins og þar hafa Fjarðabyggð og Alcoa Fjarðaál verið fastir framleggjendur fjár og Uppbyggingarsjóður Austurlands hefur styrkt verkefnið tvisvar sinnum. Heimamenn hafa svo lagt fram vinnu og fé í formi félagsgjalda í áhugamannafélagi um þessar rannsóknir sem og einstaka framlag frá einstaklingum og félagasamtökum. Aðrir hafa ekki lagt rannsókninni til fé.

Betur má ef duga skal. Það er í raun fáránlegt að nokkrar hræður í einu minnsta plássi í fjórðungnum, skuli bera hitann og þungann af því að styðja rannsóknir á upphafi byggðar á Austurlandi, því landnámið í Stöð er ekki bara innlegg í sögu Stöðvarfjarðar heldur mun fremur atburður sem varpar ljósi á það hvenær og hvernig byggð hófst á Austurlandi. Þetta er sem sé mál sem varðar Austurland allt, því tilviljun ein réði því að þessar rústir fundust á Stöðvarfirði fremur en aðrar sambærilegar í öðrum fjörðum.

Stöndum saman um að klára verkið

Nú er komið að ögurstundu; verkefnið er stórt og viðamikið og ef því á að ljúka á næstu fimm árum, þarf meira fjármagn til þess að hægt sé að vinna lengur við það á ári hverju. Á næstu vikum verður farið í fjáröflunarherferð og mega fyrirtæki á Austurlandi því búast við að fá beiðnir um styrki þegar líður á vorið. Einnig er stefnt að sölu minjagripa sem vísa til landnáms Austurlands og verður það kynnt innan skamms.

Það er von okkar sem að þessu stöndum, að Austlendingar taki landnámsmenn fjórðungsins sér til fyrirmyndar og að um þetta skapist svo mikil og jákvæð samheldni að ekki verði í frásögur færandi.

Að lokum eru svo hér reikningsupplýsingar Félags áhugafólks um fornleifarannsóknir á Stöðvarfirði, fyrir þá sem vilja styrkja félagið. Einnig er hægt að gerast meðlimur í félaginu og þá er best að senda upplýsingar á tölvupóstfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Kennitala: 510416-0310
Bankareikningur: 0167-15-380310

Höfundur er formaður Félags áhugafólks um fornleifarannsóknir á Stöðvarfirði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.