Landsbyggðin okkar
Samgöngur á landsbyggðinni skipta okkur sem búum þar miklu máli. Segja má að ástand vega og tengingar milli svæða ráði því hvort hægt sé að búa þar og starfa. Fámenn samfélög hafa átt erfitt uppdráttar vegna þess meðal annars að atvinnulíf er oft á tíðum einhæft og afþreying af skornum skammti, ekki síst fyrir börnin og unglinga.Því hefur verið mikið rætt um kosti þess að sameina sveitarfélög meðal annars vegna þrýstings frá stjórnvöldum. Gefin hafa verið loforð um bættar samgöngur og flutning opinberra starfa sem styrkja myndi innviði sveitarfélaganna. Íbúar landsbyggðarinnar hafa með þetta að veganesti farið í víðtækar sameiningar, sem er augljós kostur fyrir hinar dreifðu byggðir að vinna meira saman.
Tengjum saman
Til þess að fylgja eftir eflingu sveitarstjórnarstigsins er mikilvægt að ríkið komi að verkefninu með því meðal annars að bæta samgöngur innan Austurlands. Þar á ég við vegi sem við getum nýtt mestan hluta ársins. Núverandi vegir sem tengja saman sameinað sveitarfélag Múlaþing sem eru í allt að 530 metra hæð nýtast lítinn hluta ársins. Sama má segja um vegi þar sem skriður og snjóflóðahætta er viðvarandi.
Til þess að ná fram kostum sameiningar sveitarfélaga, þurfa stjórnvöld að vinna sína heimavinnu meðal annars með bættum samgöngum. Það er eflaust auðvelt að skella slíku fram án þess að tala um kostnað. En loforð eru loforð sem ber að standa við. Að búa við þær aðstæður sem eru nú í okkar nýjasta sameinaða sveitarfélagi á Austurlandi Múlaþingi er ekki boðleg. Við sem búum á jöðrunum í smærri samfélögum, sáum fyrir okkur greiðar leiðir fyrir börnin okkar í framhaldsskóla, þar sem skapaðist möguleiki á að koma heim reglulega, á öruggum vegum. Þá liggja sameiginleg tækifæri ef samgöngur leyfa á íþrótta- og tómstunda sviðinu, auk annarra þátta.
Almenningssamgöngur
Samhliða bættu vegakerfi með styttingu leiða milli byggðakjarna þarf að byggja upp almenningssamgöngur. Góðar og vel skipulagðar almenningssamgöngur eru framtíðin í dreifðu byggðum eins og Austurlandi. Þrátt fyrir að við sem erum alin upp við einkabílinn og þekkjum ekki annað, þá fjölgar sífellt fólki sem búið hefur erlendis við nám og störf. Margt af þessu fólki hefur góða reynslu af notkun almenningssamgangna. Auk þess eru margir sem eiga ekki kost á að ferðast með einkabíl eða kjósa frekar að nýta sér almenningssamgöngur.
Innanlandsflug
Góðar flugsamgöngur eru einnig lykilatriði fyrir fólk sem býr fjarri höfuðborginni. Þrátt fyrir að margt haf áunnist í þjónustu við hinar dreifðu byggða, þá eru flugsamgöngur innanlands mikilvægar. Því þarf að halda kostnaði fyrir farþegana í hófi. Gjald sem sett var nýlega á bílastæði flugvalla á landsbyggðinni hlýtur að teljast í meira lagi sérstakt. Þarna er stofnun á vegum ríkisins að skattleggja fólk á landsbyggðinni án þess að stjórnvöld treysti sér í að stöðva gjörninginn. Við sem kusum fulltrúa á Alþingi Íslendinga bregður, enda töldum við að þingmenn á Alþingi Íslendinga við Austurvöll réði för í okkar litla Íslandi.