Laxeldislýðskrum

Umhverfisráðuneytið kvartar undan smá leka úr El Grillo. Ríkið með Umhverfisstofnun í broddi fylkingar á að sjá um allan olíuleka úr El Grillo og hefur gert það eftir jaml og tuð frá bæjaryfirvöldum þegar fjörur hafa verið svo olíumengaðar að æðarfugl hefur drepist þar í tugatali.

Skv. þessu þarf Jens Garðar aðstoðarframkvæmdastjóri Ice Fish Farm ekkert að vera hissa á „mikilli og jafnvel furðulegri umræðu“ (hans orð) um þennan gjörning og gjafir í Seyðisfirði.

Það þýðir ekkert fyrir Jens Garðar að klæða sig úr pólitíska jakkanum og í laxeldisjakkann og fara að tala um popúlisma í pólitíkinni.

Aðstoðarforstjórinn er Sjálfstæðismaður og gegnir ýmsum hlutverkum í flokknum. Það vitum við öll sem höfum verið að berjast gegn sjókvíaeldi í Seyðisfirði. Hann talar eins og sá sem hefur valdið og fer sínar leiðir um kerfið til að troða sjókvíaeldi upp á Seyðfirðinga í óþökk þeirra.

Það er ekki stórmannlegt að vera í laxeldisgallanum og ráðast með pólitískum dylgjum á VG og Pétur Heimisson og alla hina, sem eru á móti sjókvíaeldinu.

Laxeldispólitíkusinn situr sjálfur sem formaður „Stýrihóps um landsáætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum“ í umboði umhverfisráðherra. Hann vinnur samt hörðum höndum að því að troða sjókvíaeldi inn á snjóflóðahættusvæði, yfir grænt svæði sem nýtur náttúruverndar og er á mörkum lágmarks fjarlægðar frá ósum Fjarðaár og við ósa Vestdals- og Sörlastaðarár. Þetta er ekki staða sem við viljum sjá í ljósi nýjustu umhverfishamfara af mannavöldum.

Siglingaleiðin inn Seyðisfjörð er um hafnarsvæði Seyðisfjarðarhafnar, sem er samevrópsk höfn. Ef af sjókvíaeldi verður þrengir það verulega að siglingaleiðinni með stóraukinni áhættu á umhverfisslysum.

Sjókvíaeldi á ekki heima í Seyðisfirði þar sem 75% íbúa er á móti því, og það gerir samfélagið okkar alls ekki betra eða manneskjulegra.

Hvað eru skip á vegum Ice Fish Farm að gera inn á hafnarsvæði Seyðisfjarðar? Samkvæmt nýlegum upplýsingum frá MAST er ekkert farið að vinna í leyfisveitingum í Seyðisfirði og verður ekki á næstunni. Það á eftir að vinna alla þá vinnu sem svæðisráð kláraði ekki, svo sem áhættumat siglinga, ofanflóðahættu og öryggi Farice-1, sem á helgunarsvæði upp á 926 m. Burðarþolsmatið í Seyðisfirði er rangt skv. svörtu skýrslu Ríkisendurskoðunar og er í kærumeðferð hjá Umboðsmanni alþingis. Auk þess er áhættumat erfðablöndunar á núllpunkti (Ground zero) skv. því sem Guðni Guðbergsson frá Hafrannsóknarstofnun upplýsti á opnum fundi á Hotel Nordica 19. september s.l.

Úr því að Jens Garðar er kominn upp á yfirborðið í laxeldisgallanum og farinn að dásama fyrirtækið og gagnrýna pólitíska andstæðinga, er best að nota tækifærið og spyrja hann nokkurra spurninga, en fyrst þarf hann að klæða sig í umhverfisgallann.

Hvert er þitt álit Jens Garðar á þeirri umhverfisógn af mannavöldum, sem nú er að raungerast á Vestur- og Norðurlandi?

Samkvæmt reiknilíkani Veðurstofunnar eru 12 upptökusvæði snjóflóða í Brimnesfjalli fyrir ofan Selsstaðavík, sem ná öll í sjó fram allt að 500 m.

Hvað fær aðstoðarforstjóra sjókvíaeldisfyrirtækis, sem jafnframt gegnir trúnaðarstöðu fyrir umhverfisráðherra til að halda því til streitu að troða sjókvíaeldi á stað þar sem það kemst ekki fyrir?

Hvað fær þig Jens Garðar líka til að vilja vera með sjókvíaeldi yfir grænu svæði í Skálanesbót. Þar er uppeldissvæði fugla og fiska, er nánast ofan í Skálanesbjargi og í túnfæti fræðasetursins í Skálanesi.

Í Sörlastaðavík er ekkert pláss fyrir sjókvíar. Er það þér Jens Garðar að meinalausu að ætla þér að þrengja að öryggi siglingaleiðarinnar um Seyðisfjörð?

Hefur þú Jens Garðar engar áhyggjur af villtum laxi og sjóbleikju í Seyðisfirði og Austurlandi öllu í ljósi þess að erfðablöndun er fyrir löngu byrjuð á Austurlandi?

Þið munuð fara inn á helgunarsvæði Farice-1 með akkerisfestingum skv. umsókn ykkar. Hafið þið rætt ankerisfestingar kvía og annarra hluta við framkvæmdarstjóra Farice ehf?

Fjöldi áætlaðra starfa á Seyðisfirði á síðunni ykkar er enn 16 – 18. Byggðastofnun gerði athugasemd við þetta og benti á að þetta eru gamlar áætlaðar tölur frá þeim. Gefið nú réttar upplýsingar um væntanlegan fjölda heilsársstarfa og í hverju þau fólgin.

Fyrirtækið segist vilja gera samfélagið betra og manneskjulegra. Það verður aldrei gert með því að neyða sjókvíaeldið inn á 75% íbúa samfélagsins. Seyðfirðinga langar ekkert að búa í ofbeldissambandi.

Við viljum skýr svör við spurningum okkar.

Samfélagið á Seyðisfirði er búið að bíða lengi eftir samtalinu.

Höfundur er brottfluttur Seyðfirðingur

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.