List í ljósi – spegill samfélagsins
Listahátíðin List í ljósi er nú haldin á Seyðisfirði sjötta árið í röð, en hátíðin hefur fyrir löngu sannað sig sem listahátíð á heimsmælikvarða.Fólk sem ekki býr á Seyðisfirði á hugsanlega erfitt með að samsvara sig þeirri tilfinningu að sjá ekki sólina í nokkra mánuði á hverju ári og hvað þá gleðina við að sjá sólina aftur um miðjan febrúar. Og List í ljósi er einmitt áminning um ljósið sem leynist í öllu myrkri, og að sólin sé handan við fjallgarðinn, rétt ókomin í bæinn.
Hátíðin í ár lágstemmdari en síðustu hátíðir en um leið í takt við tíðarandann á Seyðisfirði um þessar mundir. Hátíðin er að vissu leyti mun persónulegri en hún hefur verið, listamennirnir eru nátengdir Seyðisfirði og áhrif skriðanna setja mark sín á verkin.
En list er sjaldan óumdeild, og fólk var ekki lengi að lýsa yfir skoðunum sínum á bæði hátíðinni í heild sem og einstökum verkum. Hlutverk myndlistar er margþætt og um leið mismunandi eftir því hver áhorfandinn/dómarinn er. En eitt er það sem ekkert myndlistarverk getur sloppið við og það er að herma eftir raunveruleikanum. Hvort sem það eru form, litir eða mótív á listaverk alltaf samsvörun í náttúrunni þótt oft sé erfitt að sjá það við fyrstu sýn.
Eitt verk á List í ljósi virðist standa uppúr samkvæmt umræðu gesta fyrra kvölds hátíðarinnar. Krakkar í félagsmiðstöðinni fengu vegg á Herðubreið sem hvítan striga og frjálsar hendur til að leyfa sköpunargáfunni að njóta sín. Einstaklingsverkin sem saman mynda eina heild voru jafn fjölbreytt og þau voru mörg, en um leið vöktu þau upp spurningar og undrun margra gesta sem börðu þau augu. „Er þetta list? Má bara hvað sem er í dag? Er enginn að passa uppá börnin? Hver leyfir svona? Af hverju geta þau ekki bara gert eitthvað fallegt?“
Þetta er einmitt kjarni málsins; list á að ögra áhorfandanum og opna þannig á samtal milli áhorfanda og verksins. En það sem ögrar í verkum krakkanna á sér allt samsvörun í okkar eigin raunveruleika; þarna fá tilfinningar að brjótast fram, slagorð sem birtast okkur í fréttum og jafnvel vísun í uppruna nemanda. Og þetta ögrar, þessi spegill á samfélagið sem lætur okkur líta inná við og skammast okkar. Börnin og krakkarnir segja það sem við hugsum og eru óhrædd að koma því á framfæri, laus við alla meðvirkni gagnvart samfélaginu.
Krakkarnir eru nefnilega með augu og eyru og fylgjast með okkur á hverjum degi. Þannig kallast samverk krakkanna á Herðubreið á við verk ljósmyndarans Rafael Vázquez „Heiðný's eyes“ í glugga á Austurvegi 30 þar sem vökul augu barns fylgjast með gestum sem ganga fram hjá. Og gestir fá á tilfinninguna að einhver sé að fylgjast með sér, einhver sem sér allt og veit allt.
Það er einnig stór misskilningur að list þurfi að vera falleg. Fegurðargildi verka liggur hjá hverjum áhorfanda fyrir sig, það sem sumum finnst fallegt finnst öðrum ljótt. Sumir sjá fegurð í gróteskunni meðan aðrir sjá einungis fegurð í því sem er þægilegt að horfa á.
Við skulum ekki skammast yfir krökkunum sem fengu vegg Herðubreiðar og smána sköpunargáfu þeirra. Einhvers staðar fengu þau hugmyndina af verkum sínum, einhvers staðar þurfa þau að finna tilfinningum sínum stað og einhvers staðar þurfa þau að fá viðurkenningu. Við skulum frekar fagna þessum óbeislaða sköpunarkrafti sem einhversstaðar týnist í mótun fullorðinna einstaklinga.
Höfundur er íbúi á Seyðisfirði og listfræðingur