Listahátíð í Dalatangavita

Listahátíð í Reykjavík 2009 stendur í vor að óhefðbundinni listsýningu í fjórum vitum hringinn í kring um landið, einum í hverjum landsfjórðungi. Myndlistarmönnum hefur verið boðið að setja upp verk sín í vitunum, sem verða opnir ferðalöngum fram yfir verslunarmannahelgi. Um er að ræða Dalatangavita, Garðskagavita, Bjargtangavita og Kópaskersvita. Listamaðurinn Unnar Örn sýnir á Austurlandi og opnar sýningin um miðjan maí.

dalatangi.jpg

Fólk er hvatt til að ferðast í sumar á milli vita, taka þátt í sérstökum menningarviðburði, heimsækja þessi forvitnilegu mannvirki og njóta einstakrar náttúrufegurðar. Aukinheldur teygir sýningin anga sína í hina ýmsa miðla og munu berast leiftur frá hverjum vita hér og hvar í allt sumar þar sem listamennirnir verða í sérstöku samstarfi við útvarp, sjónvarp, dagblöð og vefmiðla. Í Tjörninni í Reykjavík verður komið fyrir fjórum baujum sem vísa til verkefnisins í heild auk þess sem það er kynnt á skjám í Kjarvalsstöðum.

Listahátíð í Reykjavík vinnur sýninguna í samstarfi með Siglingastofnun Íslands, vitavörðum í hverjum vita og menningarfulltrúum þeirra sveitafélaga sem um ræðir.

Með sýningarstjórn fara Markús Þór Andrésson og Dorothée Kirch.

 

Unnar Örn skoðar þær hefðir og venjur sem mótast hafa í skrásetningu fólks á umhverfi sínu. Hann þræðir stofnarnir og söfn og notar innviði þeirra í verk sem draga dám af uppröðun og flokkun raunveruleikans. Þegar hann setti upp sýninguna Coup d’Etat í Suðsuðvestur árið 2007 vann hann í samstarfi við minjasafn Reykjanesbæjar og skeytti saman á eftirminnilegan máta staðbundinni menningararfleið og táknmyndum nýfrjálshyggjunnar. Sýning Unnars verður í Dalatangavita, á fáförnum en ægifögrum slóðum út af Mjóafirði á Austfjörðum. Unnar Örn er fæddur árið 1974 og nam myndlist í Malmö í Svíþjóð. Hann hefur undanfarin ár sýnt í Listasafni Íslands, Safni og Kling & Bang galleríi, auk þess að standa að útgáfu eigin bókverka og plakata. Frekari upplýsingar um Unnar Örn má finna á heimasíðu hans: www.unnarorn.net

 

Að auki verða þrennir svokallaðir Stofutónleikar á vegum Listahátíðar á Austurlandi; Duo Landon 29. maí í Stríðsárasafninu á Reyðarafirði, Benda slagverkshópur 30. maí í Randúlffssjóhúsi á Eskifirði og Ólöf Arnalds 31. maí í Safnahúsinu í Neskaupstað.

 

Upplýsingar: Listahátíð í Reykjavík

Ljósmynd af Dalatangavita: Anke-Jens

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.