Orkumálinn 2024

Lýðræðisveislan

Ágætu kjósendur.

Brátt rennur stundin upp, kjördagur nálgast. Við Píratar höfum gert okkar besta til að uppfræða ykkur, m.a. í þessum miðli, um stefnumál okkar stór og smá.

Ég ætla ekki að tína þau öll til hér og nú, en þau má skoða hér. Ég vil þó minnast á stærstu umbætur lýðræðisins sem í boði eru, ef kjósendum ber gæfa til að krefjast þeirra nk. laugardag. Þar á ég að sjálfsögðu við nýja stjórnarskrá, sem byggð yrði á tillögum Stjórnlagaráðs frá 2012.

Lýðræðisumbæturnar felast í því að almennir kjósendur geti sjálfir ástundað meira beint lýðræði, kjósi þeir svo. Þar á ég við ákvæði um að 10% kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt, ákvæði um að 2% kjósenda geti lagt fram þingmál og ákvæði um að 10% kjósenda geti lagt fram lagafrumvarp á Alþingi.

Fyrir skömmu heyrði ég ónefndan ráðherra nefna að á Íslandi væri fulltrúalýðræði og þar við sæti. Það er vissulega þannig að við höfum fulltrúalýðræði, en það er ekki eins og það sé hið eina sanna. Það er nefnilega þannig að lýðræðið er ekki óbreytanleg eðlisfræðiformúla. Lýðræðið hefur þróast frá því að Grikkir lögðu grunn að því fyrir 2.500 árum.

Í árdaga lýðræðisins í Grikklandi hafði mjög afmarkaður hópur frjálsra karlmanna kosningarétt. Í Bandaríkjunum höfðu einungis hvítir, vel stæðir karlar kosningarétt um langt skeið. Fram til 1915 höfðu konur ekki kosningarétt hér á landi. Fram á fjórða áratug síðustu aldar hafði fólk sem einhvern tímann hafði „þegið af sveit“, þ.e. þegið fjárhagsaðstoð til framfærslu, ekki kosningarétt hér á landi.

Sem betur fer eru aðstæður gjörbreyttar nú í dag. Lýðræðishugtakið hefur þróast í samræmi við breyttan tíðaranda. Lýðræðið mun áfram taka breytingum eftir því sem fram líða stundir og við Píratar trúum því að nú sé kominn tími til að stíga næsta skref með meira beinu lýðræði.

Ágætu kjósendur, þið vitið hvar þið hafið okkur Pírata.

Höfundur er oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi við Alþingiskosningarnar þann 25. september nk.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.